Átaksverkefni í nýsköpun

Steinunn Ósk Kolbeinsdóttir Nýjar fréttir

Í gær hélt Háskólafélag Suðurlands fund á Hótel Flúðum þar sem rætt var um nýsköpun í uppsveitum Árnessýslu. Tillaga er um að Háskólafélagið hafi forgang um átaksverkefni í uppsveitum Árnessýslu með því að standa með Matís að tímabundinni ráðningu starfsmanns. Hugmyndin er að koma upp matvælasmiðju og þróa staðbundið nám í frumkvöðla- og matvælatækni og tengja það við lýðheilsufræði á síðari stigum verkefnisins.

Matvælasmiðjan nýtist öllu svæðinu og þess vegna landinu í heild. Markmiðið er að þróa nýjar vörur, bæta nýtingu hráefnis, tengja starfsemina ferðaþjónustunni. Mikill áhugi er fyrir staðbundinni matvöru og er slíkt að verða hluti af nútíma ferðaþjónustu í landinu. Hvergi á landinu er meiri matvælaframleiðsla en á Suðurlandi og í uppsveitum Árnessýslu er framleitt 80% af öllu grænmeti sem er ræktað á Íslandi.

Hér er um svokallað klasaverkefni eða samvinnuverkefni margra aðila og er þegar farið að leita eftir húsnæði fyrir starfsemina á Flúðum. Þá hafa aðilar einnig sýnt áhuga fyrir að koma á fót fiskeldi á Flúðum og er Matís einnig tengiliður í þeim efnum.