Atvinnu-/verslunarhúsnæði keypt á Flúðum

evaadmin Nýjar fréttir

Kauptilboð vegna jarðhæðar og kjallara hússins að Hrunamannavegi 3 á Flúðum var samþykkt á fundi sveitarstjórnar þann 5. janúar 2023.  Kaupverðið er 180 m.kr..   Um er að ræða hluta af verslunar/atvinnuhúsnæðinu að Hrunamannavegi 3 á Flúðum. Húsið er byggt árið 2019, steypt og klætt að utan.  Alls er um að ræða 492 fermetra í óinnréttuðu rými á jarðhæð á besta stað við aðalgötuna á Flúðum auk 521m2 rýmis í kjallara með fullri lofthæð.  Í kauptilboði er einnig gert ráð fyrir kauprétti þannig að sveitarfélagið getur keypt bil „Almars bakara“ á fyrirfram ákveðnu verði (20 m.kr),  gildir rétturinn til loka árs 2024, verðbættur. Það rými er í dag fullinnréttað sem veitingastaður.

Á sama fundi var einnig samþykkt að veita seljanda kauprétt á húsnæði sveitarfélagsins að Akurgerði 4, enda höfðu slíkar hugmyndir um eignaskipti verið ræddar í tengslum við kaupin á Hrunamannavegi 3.  Kaupréttur sá gildir til loka árs 2023 og nemur umsamin upphæð kr. 50.000.000,-. Endanleg upphæð mun þó taka mið af breytingu byggingavísitölu frá undirritun kaupsamnings til þess dags að kaupréttur verði nýttur. Aðiilar hafa komið sér saman um að í kaupsamningi verði ákvæði varðandi það að Akurgerði 4 verði til framtíðar eingöngu nýtt fyrir verslun og þjónustu eins og verið hefur.

Á fundi sveitarstjórnar var bókað að sveitarstjórn fagnar því að samningar skuli hafa náðst um kaup á þessu glæsilega húsnæði sem í framhaldinu verður fundið verðugt hlutverk í miðbæ Flúða, miðju Uppsveita Árnessýslu. Eru kaupin í fullu samræmi við fjárhagsáætlun ársins 2023.   Sé reiknað út fermetraverð hússins nemur það kr. 181.451,-  á heildarfermetrafjöldann,  en sé eingöngu reiknað með fermetrum á jarðhæð að teknu tilliti til kaupréttar á húsnæði Almars er fermetra verðið 280.899,- sem verður að teljast afar ásættanlegt verð fyrir jafn gott hús og hér um ræðir.

Á meðfylgjandi myndum má sjá sveitarstjórn ásamt Guðmundi Kristinssyni seljanda hússins við undirritun kauptilboðsins.

 

Aldís Hafsteinsdóttir

Sveitarstjóri.