Covid aðgerðir – næstu skref

Lilja Helgadóttir Nýjar fréttir

Oddviti, sveitarstjóri, skólastjórnendur og yfirmaður íþróttamannvirkja hafa unnið með smitrakningateyminu, sóttvarnarlækni á Suðurlandi, Almannavörnum og heilsugæslunni í Laugarási að því að ákveða næstu skref hjá okkur. Niðurstöður úr þeirri vinnu eru eftirfarandi:

  • Í ljósi þess að stór hópur úr Flúðaskóla á að fara í skimun á þriðjudaginn hefur verið ákveðið að skimað verður hér hjá okkur og verður það í Félagsheimilinu. Nánari upplýsingar vegna fyrirkomulags skimunar koma fram í öðrum pósti sem sendur verður út fljótlega.
  • Flúðaskóli verður lokaður á mánudaginn (starfsdagur) og þriðjudaginn.
  • Sundlaug, íþróttahús og tækjasalur verða lokuð mánudag og þriðjudag auk þess sem auglýst hefur verið.
  • Við óskum eftir því að foreldrar barna í leikskólanum, sem eiga þess nokkrun kost, haldi börnum sínum heima og komi ekki með þau í leikskólann fyrr en niðurstöður skimana liggja fyrir. Þeir foreldrar sem sjá sér fært að verða við þessari beiðni eru beðnir að láta leikkkólann vita sem allra fyrst. Ekki verða innheimt leikskólagjöld vegna þeirra daga sem börn eru heima enda hafi verið látið vita fyrirfram.
  • Skrifstofa og áhaldahús Hrunamannarhrepps eru lokuð fyrir öðrum en þeim sem þar starfa. Unnt verður að hafa samband við starfsmenn á hefðbundnum skrifstofutíma, 09:00 til 16:00 í gegnum síma 480-6600 og eða með tölvupósti á viðkomandi starfsmann.
  • Bókasafn verður lokað mánudag og þriðjudag.
  • Matur til eldri Hrunamanna: Útkeyrsla á mat mun halda áfram eins og verið hefur.

Það eru margir í sóttkví og þar sem það hefur áhrif á mönnun í stofnunum okkar má gera ráð fyrir að þær stofnanir sem eru opnar séu með takmarkaða starfsgetu.  Við vonum að íbúar taki vel í þessar aðgerðir sem við erum að fara í því með samstilltu átaki náum við að hefta útbreiðslu veirunnar.

Minnum á góðar upplýsingar inn á Covid.is og heilsuvera.is en þar er einnig hægt að fá netspjall við hjúkrunarfræðing ef einhverjar spurningar vakna.