Loftmynd af uppgreftrinum frá 2008
Sumarið 2009 lauk uppgrefti á Búðarárbakka sem hefur staðið þar yfir allt frá árinu 2005. Rannsóknirnar hafa verið styrktar af Fornleifasjóði, sveitarfélaginu Hrunamannahreppi, Landsneti hf. og Fornleifafræðistofunni.
Eyðibýlið Búðarárbakki stendur við ármót Búðarár og Hvítar nokkru norðan við Gullfoss. Þar byggði maður að nafni Þorkell kotbýli rétt eftir miðja 17. öldina og bjó þar í um tíu ár, en svo er greint frá í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá árin 1703. Fornleifauppgröfturinn leiddi í ljós lítinn gangabæ með viðbyggðu gerði. Búskapur á bænum hefur verið með minnsta móti en einbúinn hefur lifað af því að framleiða ýmis konar steinverkfæri, sérstaklega steinsleggjur eða fiskisleggjur en líka annars konar steina með tilgerðum götum svo sem kljásteina og netasökkur. Verkstæði Þorkels kotbónda var í litlu skýli inni í gerðinu en þar fundust ekki aðeins steinsleggjubrot heldur líka fjöldi síla sem karlinn notaði við að meitla götin í sleggjuhausinn fyrir sjálft sleggjuskaftið.