Forvarnardagurinn 2022

evaadmin Nýjar fréttir

Miðvikudaginn 5. október 2022 verður Forvarnardagurinn haldinn í 17 sinn í grunnskólum landsins og í tólfta sinn í framhaldsskólum.

Forvarnardagurinn er haldinn að frumkvæði forseta Íslands. Aðrir samstarfsaðilar að Forvarnardeginum eru Embætti landlæknis, sem sér um verkefnisstjórn dagsins, Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, Samfés, Heimili og skóli – landsamtök foreldra, Ungmennafélag Íslands, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Skátar, Rannsóknir og greining og SAFF – Samstarf félagasamtaka í forvörnum.

Forvarnardagurinn er haldinn á hverju hausti og er beint sérstaklega að nemendum í 9. bekk grunnskóla og á 1. ári í framhaldsskólum. Dagskrá í tengslum við Forvarnardaginn snýst um að nemendur ræði meðal annars um hugmyndir sínar og tillögur um samverustundir með fjölskyldu og skipulagt íþrótta- og tómstundastarf, en þetta eru á meðal verndandi þátta gegn áhættuhegðun.

Markmið Forvarnardagsins er að vekja athygli á mikilvægum þáttum í forvarnarstarfi sem snúa að ungu fólki. Á heimasíðu Forvarnardagsins er meðal annars að finna fróðleik og myndbönd um forvarnir www.forvarnardagur.is

Allir sem koma að málefnum barna og ungmenna á einn eða annan hátt eru hvattir til halda gildum forvarnardagsins á lofti og fylgjast vel með starfsemi grunn- og framhaldsskóla þennan dag og/eða í október, eftir því sem við á, með áherslu á fyrrgreinda árganga. Til dæmis með því að virkja fjölmiðla á svæðinu. Grunn- og framhaldsskólar eru sérstaklega hvattir til að finna leiðir til að leyfa fulltrúum nærsamfélagsins að fylgjast með verkefnum Forvarnardagsins sem unnin verða í skólunum á tímabilinu 5. – 21. október í ár.

Höfum í huga að forvarnir er viðvarandi verkefni sem snýr bæði að almenningi og þeim sem bera ábyrgð á samfélagslegum ákvörðunum og stefnumörkun. Minnumst þess hversu góðum árangri hefur verið náð. Sem dæmi má nefna að fyrir rúmum 20 árum sögðust 42% nemenda í 10. bekk hafa neytt áfengis síðustu 30 daga en árið 2022 var talan komin í 5% (sjá meðfylgjandi mynd) og árið 2021 höfðu 51% nemenda í framhaldsskólum aldrei orðið ölvaðir. Á vef Embætti landlæknis er að finna staðreyndablað um forvarnir í skólum sem mikilvægt er að hafa til hliðsjónar þegar unnið er að forvörnum.

Fréttatilkynning þessi er birt fyrir hönd samstarfsaðila Forvarnardagsins.