Gróðrarstöð UMFH

Ungmennafélag Hrunamanna – UMFH
Stofnað 1908

Fyrstu skrefin
Í byrjun 20. aldarinnar má segja að hafi orðið straumhvörf í íslensku þjóðlífi þegar áhrifa æskufélagshreyfinga, einkum frá Noregi, fór að gæta hér á landi.

Í Hrunamannahreppi gætti þessara áhrifa fljótlega upp úr aldamótum síðustu aldar.

UMFH var stofnað 17. apríl 1908 og voru stofnfélagar 45 talsins. Fyrsti aðalfundur félagsins var haldinn 28. maí sama ár og bættust þá 13 nýir félagsmenn við.

Sundkennsla og skógrækt
Fyrsta starfsemi félagsins var sundkennsla og skógrækt. Félagið sá um sundkennslu allt þar til skólalöggjöf um sundkennslu var sett á. Kennt var í lauginni í Hverahólmanum við Gröf (Gamla laugin/Secret lagoon) fyrstu árin en frá 1949 fór öll kennsla fram í nýrri sundlaug við Hellisholtalæk sem ungmennafélagar höfðu að miklu leyti byggt í sjálfboðavinnu. Sú laug stendur enn í nær óbreyttri mynd.

Skógrækt stunduðu ungmennafélagar til að byrja með í gróðurreit sem þeir settu á laggirnar í Hellisholtalandi (Gróðrarstöð UMFH/Ungmennafélagsgarður) en í kringum 1935 fluttist öll skógrækt UMFH að Álfaskeiði í Langholtsfjalli. UMFH gekk til samstarfs við Skógræktarfélag Árnesinga og starfaði innan þess fram til ársins 1986 þegar Skógræktarfélag Hrunamannahrepps var stofnað. Þá má segja að skógrækt innan UMFH hafi lagst af.

Fundir og sjálfboðaliðastarf
Fyrstu árin voru allir fundir félagsins haldnir í Hrunakirkju en síðar í samkomusal barnaskólans við Hellisholtalæk (Gamli barnaskólinn). Þar fékk UMFH einnig aðstöðu til að sýna leikrit og halda skemmtanir.

Ungmennafélagar tóku mikinn þátt í byggingu samkomusalarins, bæði með sjálfboðaliðastarfi og fjárframlögum. Síðar tóku ungmennafélagar einnig virkan þátt í byggingu nýs félagsheimilis sem enn stendur.

Íþróttastarf
Félagið gekkst fyrir íþróttaiðkun í sveitinni og styrkti jafnframt efnilega menn til þess að sækja íþróttanámskeið sem haldin voru ýmist í Reykjavík eða á Þjórsártúni og víðar. Mikil þátttaka var á æfingum félagsins og náðu Hrunamenn fljótlega góðum árangri í héraðinu.

Æfingar fóru fram í samkomusal gamla skólans og utandyra.

Leiklist
Einn þáttur í starfi félagsins sem hefur fylgt því svo að segja frá upphafi vega er leiklistarstarf. Á jólaföstu 1910 sýndi félagið Gamla Togga og var það fyrsta sýningin af mörgum á vegum félagsins í gegnum tíðina.

Fyrstu árin sýndi félagið í þinghúsi sveitarinnar en þegar barnaskólinn var vígður fengu ungmennafélagar afnot af salnum til sýninga. Árið 1958 var það hús yfirgefið þegar félagsheimilið leysti það af hólmi. Leiklistarstarf stóð með miklum blóma fram undir aldamótin 2000.

Álfaskeiðsskemmtun
Árið 1905 er vitað til að fyrsta samkoman var haldin á Álfaskeiði í Langholtsfjalli.  Skemmtanirnar byrjuðu sem fjölskyldumót Birtingaholtshjóna en eftir að UMFH var stofnað 1908, gekkst það fyrir samkomum á Álfaskeiði og sá um þær að öllu leyti. Samkomurnar voru þá opnar öllum almenningi og voru bæði íþróttamót/sýningar og skemmtanir.

Mikill fjöldi sótti Álfaskeiðsskemmtun sem var á hverju sumri og kom fólk ríðandi og akandi í seinni tíma til skemmtunarinnar. Allir hlökkuðu til að fara á skemmtunina.

Margar ræður hafa verið flutta á þessum samkomum og má þar nefna meðal annarra ræðumanna; sr. Kjartan Helgason, Helga Valtýsson, Guðmund Finnbogason, Sigurð Nordal, sr. Sigurð Einarsson, Sigurð Skúlason, Halldór Laxness og marga fleiri.

Árnesingar I – Hrunamenn – 2. bindi bls. 444. 

Í bókinni Árnesingar I, Hrunamenn, 2. bindi, bls. 445, lýsir Helgi Valtýsson hátíðinni þannig: 

Á Álfaskeiði.
Ég býst  tæplega við , að nokkur önnur sveit á Íslandi hafi svo algerlega tekið svip af ungmennafélögum sínum og starfi þeirra, eins og Hrunamannhreppur í Árnessýslu. 

Um langt skeið var öll sveitin eiginlega eitt stórt ungmennafélag. Sálin í þeim félagsskap voru þeir Birtingaholtsbræður, frændur þeirra og vinir.  Og einkennilega sjaldgæf samúðarþrungin vinátta, sterk og hlý, vermdi og frjóvgaði allt sveitalífið. 

Allt andrúmsloft þess var æskubjart og harmingjuþrungið og þar var gott að dvelja.  Þess vegna hlakkaði öll sveitin til hins árlega sumarmóts á Álfaskeiði. Það var sumarhátíð allrar sveitarinnar. Yfir hugsuninni um Álfaskeiðsmótið og tilhlökkuninni um það, hvíldi sami töfrabjarmi og yfir sjálfum þessum sérkennilegu, dásamlegu völlum.

Þangað steymdi allt, sem vettlingi gat valdið og fleiri en það.  Frá brjóstabarninu til gamalmennisins. Þá var flestum bæjum sveitarinnar lokað mestan hluta dagsins. Einn sólbjartan dag og sumarbláan, er hópar af prúðbúnu fólki streymdi inn á Álfaskeið eins og það kæmi beint út úr hömrum og hólum.  Þá varð Álfaskeið ein hin fegursta mynd og ógleymanlegasta af íslensku sveitalífi, sem heilbrigð og hugsjónarík æska hafði sett svip sinn á, mótað það og gert það bjart og fagurt.

Að því marki ættu öll ungmennafélög að stefna.

Íþróttastarf UMFH síðari ára
Íþróttastarfsemin fluttist í félagsheimilið 1958 og var stóri salurinn þar notaður sem íþróttasalur þangað til byggt var íþróttahús árið 1993 sem var síðan fullklárað 2016.

Eins og víða úti á landi voru félagsheimilin nýtt sem íþróttahús ungmennafélaga og kennslustofa íþrótta í skólum. Mörg ungmennafélög hafa nýtt slík hús í gegnum tíðina og átt afreksmenn í mörgum íþróttum og þá einkum í frjálsum íþróttum og blaki.

Það var mikil  lyftistöng fyrir starfsemi UMFH að fá íþróttahús og hefur það verið í fullri notkun frá því það var opnað 1993.

Frá upphafi og til ársins 1992 voru nefndir sem sáu um verkefni félagsins. Árið 1993  var félaginu skipt í deildir og hver deild er með eigin stjórn og fjárhag.

Í dag eru starfandi 6 deildir innan UMFH; blakdeild, bridsdeild, frjálsíþróttadeild, fimleikadeild, körfuknattleiksdeild og knattspyrnudeild.

Starfsemi UMFH er afar blómleg. Svo til öll börn sveitarfélagsins taka þátt í starfi félagsins og iðka íþróttir af kappi og jafnframt koma börn úr nágrannasveitarfélögum á æfingar í íþróttahúsinu. Margir fullorðnir stunda íþróttir og spila brids. Um 30% íbúa taka þátt í starfsemi félagsins.

Iðkendur UMFH  eru duglegir að taka þátt í mótum hvers konar og hafa oft verið framarlega í þeim  keppnisgreinum sem þeir taka þátt í.

Í upphafi voru deildirnar fleiri t.d glímudeild og skíðadeild sem rak skíðalyftur í Högnastaðaásnum um nokkurt skeið. Eins og áður hefur komið fram var leikdeild UMFH afar virk fram til ársins 2000.

2016
Skráðir iðkendur UMFH eru um 240 talsins eða um 30% af íbúafjölda sveitarfélagsins. UMFH hefur í gegnum tíðina státað af háu hlutfalli afreksfólks. Hafa Hrunamenn m.a.  keppt í landsliðsbúningi nokkurra íþróttagreina.

Heimildir.