Kvenfélagsskógurinn

Kvenfélag Hrunamannahrepps 2016

Útdráttur úr lögum félagsins sem sett voru á stofnfundi:

Kvenfélag Hrunamannahrepps var stofnað 1. mars 1942.
Tilgangur félagsins er að:
–  efla kynni og samvinnu kvenna innan sveitarinnar
–  að beita sér fyrir mannúðarmálum eftir megni
–  að efla heimilisiðnaðinn eftir því sem kostur er
–  að efla þekkingu á garðrækt og híbýlaprýði.

Inntöku í félagið getur hver kona hlotið sem er 18 ára eða eldri.

Kvenfélag Hrunamannahrepps er félagsskapur tæpra 100 kvenna (ár 2016) sem hafa það að markmiði að láta gott af sér leiða, hafa gaman af lífinu, skemmta sér og öðrum og læra eitthvað nýtt, í gegnum leik og störf.
Félagskonur búa bæði innan sveitarinnar og utan.

Starfsemi Kvenfélags Hrunamannahrepps felst m.a. í eftirfarandi:

 • námskeiðahaldi
 • fyrirlestrum
 • erfidrykkjum
 • fundarkaffi
 • skemmtiferðum fyrir eldri Hrunamenn
 • skemmtiferðum félagskvenna
 • útreiðartúrum
 • gönguferðum
 • menningarferðum
 • skemmti- og menningarkvöldum
 • fjáröflunum
 • styrkveitingum.

Allar félagskonur hafa tök á að taka þátt í þessari starfsemi.
Utanfélagskonur hafa einnig tekið þátt í hvers konar starfsemi félagsins.

Heimasíða Kvenfélags Hrunamannahrepps.

Flúðaskóli nýtir kvenfélagsskóginn til útináms allan veturinn
Á nokkrum árum hefur myndast sterk hefð fyrir útikennslu allt árið í Flúðaskóla. Stýrihópur (LÍS) stýrir vinnunni og skipuleggur alla útikennslu í samstarfi við kennara, nemendur og aðra starfsmenn.
Skógardagar eru haldnir að vori og eða hausti. Á skógardögum vinna nemendur fjölbreytt verkefni auk grisjunar og vinnu við stíga.

Hér eru nefnd nokkur dæmi um útikennslu:

 • útbúin vindharpa
 • líffræðikennsla um gróðurfar og fugla
 • útbúnir víkingaskartgripir
 • fléttaðar myndir í ramma úr efni skógarins
 • kennt að kveikja eld m. tinnu
 • fræðsla um trjátegundir skógarins
 • sagaðir drumbar
 • klippt og tálgað
 • ýmis konar sköpun
 • tálgun
 • skordýraskoðun
 • mæling trjáa
 • þrautabraut
 • uppsetning fuglahúsa
 • söguð tré
 • eldað við eldstæði
 • hreinsun og almenn tiltekt

Grenitré breytist í ræðupúlt
Fyrstu trjám var plantað í Kvenfélagsskóginn 1950. Enn standa nokkur tré frá þeim tíma og hefur það verið verkefni Flúðaskóla að grisja og hreinsa til í skóginum. Þau tré sem eru felld eru oftar en ekki nýtt til uppbyggingar á aðstöðu til útikennslu. Sem dæmi var 36 ára gamalt grenitré fellt (u.þ.b. 11 metrar) sem gegnir nú hlutverki ræðupúlts og áheyrandabekkja í rjóðri.

Menntaverðlaun Suðurlands
Flúðaskóli hefur verið leiðandi í útikennslu á Íslandi og hefur haldið fjölmörg námskeið um útikennslu fyrir aðra skóla og stofnanir. Verkefnið hefur vakið athygli og árið 2010 hlaut skólinn Menntaverðlaun Suðurlands fyrir verkefnið „Lesið í skóginn með skólum“.

Skógarskýli
LÍS-hópur Flúðaskóla kom með tillögur að skógarskýli sem reisa mætti í eða við útikennslusvæðið og nýta bæði til kennslu og annarrar útiveru fyrir bæði heimamenn og ferðamenn. Trjáskýli, eftir teikningum og hugmyndum Jóhannesar Sigurðssonar, starfsmanns Skógræktar ríkisins, var reist í Gróðrarstöðinni og ber útikennslu Flúðaskóla fagurt vitni.

Peningagjöf Skógræktarfélags Hrunamanna
Skógræktarfélag Hrunamanna færði Flúðaskóla peningagjöf sem nýtt var til kaupa á trébekkjum og borðum smíðuð af Jóhannesi H. Sigurðssyni, bakpoka með ýmsum nauðsynjahlutum og námsbækur til að nota við útikennslu.
Gott samstarf hefur verið við Skógræktarfélagið, Kvenfélagið og Hrunamannahrepp frá upphafi útikennslu í Flúðaskóla.

Heimildir.