Lækjargarðurinn

Skógræktarfélag Hrunamannahrepps – 2016

Skógræktarfélag Hrunamannahrepps var stofnað árið 1986 í núverandi mynd en áður höfðu skógræktarnefndir innan UMFH og Kvenfélags Hrunamannahrepps verið virkar í skógrækt í hreppnum.

Markmið félagsins var að sameina þá skógræktarstarfsemi sem fyrir væri innan sveitarinnar í eina heild. Félagið var ekki stofnað til að yfirtaka skógrækt UMFH og kvenfélags heldur til stuðnings við skógrækt þeirra eins og hægt væri.

Eitt af stærri verkefnum félagsins hefur verið asparáætlunin svokallaða en kveikjan að þeirri hugmynd voru aspir sem plantað hafði verið meðfram vegum á Flúðum og höfðu vakið verðskuldaða athygli. Var markmiðið að gróðursetja aspir meðfram þjóðveginum frá Flúðum að Stóru-Laxárbrú með u.þ.b. 6 m millibili við skurðbrún fjær vegi og kæmi síðan girðing sem vegagerðin sæi um. Þetta yrði gert með samþykki allra landeigenda. Nær allir landeigendur samþykktu asparáætlunina og liggur því sem næst samfelld röð aspa frá brú Stóru-Laxár að Flúðum.

Árið 1988 hófst fyrsta útplöntun asparáætlunarinnar með útplöntun á öspum áleiðis frá Flúðum.

Stærri verkefni félagsins í dag, auk útplöntunar og grisjunar, er uppbygging garðs á Flúðum í samstarfi við Hrunamannahrepp og uppbygging nýrrar skógræktar í Kópsvatnsási.

Almennur starfsvettvangur félagsins er útplöntun trjáa í Kópsvatnsás ásamt fleirum verkefnum þar, grisjun trjáa í Högnastaðaás og trjásafn félagsins innan Lækjargarðsins. Jafnframt sér félagið um umhirðu aspa frá brú Stóru-Laxár að Flúðum.

Meginmarkmið félagsins er að útbúa staði þar sem almenningur getur komið og notið útiveru í skógi.

Félagar eru um 100 og eru þar af virkir meðlimir í kringum 20. Í stjórn eru 3 í aðalstjórn og 3 í varastjórn og vinnur varastjórn náið með aðalstjórn. Skógræktarfélag Hrunamannahrepps er deild innan Skógræktarfélags Árnesinga.

Félaginu hafa borist ýmsir styrkir í gegnum tíðina. Má nefna gjöf Laufeyjar Indriðadóttur frá Ásatúni til uppbyggingar á lystigarði, gjöf Bjarna Jónssonar frá Kópsvatni til uppbyggingar skógræktar í Kópstaðaás og gjöf Kristínar Karlsdóttur og Jóhannesar Helgasonar í Hvammi sem er vísir að trjásafni í Lækjargarðinn. Jafnframt fær félagið árlega styrki til plöntuúthlutunar.

Allir félagar greiða árgjald.

Heimildir.