Fyrstu áföngum í lagningu á ljósleiðara lokið

Lilja Helgadóttir Nýjar fréttir

Eftir vel sóttan fund í gær, miðvikudaginn 15. ágúst, þar sem íbúum gafst tækifæri á að kynna sér þá þjónustu og tilboð sem fjarskiptafélög bjóða íbúum í dreifbýlinu, er komið að því að fyrstu notendur geta byrjað að nota kerfið.

Lagning á ljósleiðara í dreifðum byggðum gengur samkvæmt áætlun. Fyrstu tveimur áföngum verkefnisins er lokið og samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar geta þeir sem tilheyra þeim áföngum nú pantað sér fjarskiptaþjónustu hjá sínu fjarskiptafélagi og byrjað að nota ljósleiðarakerfið. Íbúar í áfanga 4 og áfanga 1A geta sem sagt pantað sér fjarskiptaþjónustu. Til upprifjunar þá er pöntunarferlið á þann veg að notendur panta sér fjarskiptaþjónustu hjá fjarskiptafyrirtæki sem selur internet-, sjónvarps- eða símaþjónustu. Eftir að þjónustan er pöntuð geta liðið nokkrir dagar þar til viðkomandi fær heimsókn frá fulltrúa þess fyrirtækis sem pantað var hjá og fær aðstoð við að setja upp þann búnað sem þarf til.  Þegar pöntun fer fram er mikilvægt að hafa við hendina LL númer. Hver tengistaður (heimili/fyrirtæki/sumarhús) hefur sitt LL númer og það er skráð á ljósleiðaraboxið sem nú þegar hefur verið sett upp. LL númer gæti t.d. verið LL102.T05.01.  Þetta númer er lykilatriði til þess að tryggja að sú fjarskiptaþjónusta sem pöntuð er rati inn í rétt hús.

Innan áfanga 4 eru Hverabakki, Laxárbakki, Grafarbakki, Hvammur og tengistaðir þar í kring.

Innan áfanga 1A eru heimili á leiðinni: Flúðir-Hellisholt-Gata-Miðfell-Galtafell-Nústún að Hólakoti.

Til upplýsinga er þriðji áfangi verkefnisins mjög langt kominn og ef áætlanir ganga eftir geta íbúar innan þess áfanga þ.e. áfanga sem heitir áfangi 2, pantað sé fjarskiptaþjónustu eftir um 3 vikur. Innan þess áfanga eru tengistaðir frá Hólakoti-Sóleyjarbakki-Birtingaholt og Syðra Langholt.

Flúðum, 16. ágúst 2018