Hálendismiðstöð Kerlingarfjöllum

Lilja Helgadóttir Nýjar fréttir

AUGLÝSING

um nýtingu lands og landsréttinda innan þjóðlendu

Sveitarfélagið Hrunamannahreppur auglýsir eftir aðilum til að nýta lóð undir hálendismiðstöð í Kerlingarfjöllum.  Um er að ræða ca 6,14 ha lóð, sbr. drög að hnitsettu lóðablaði um svæðið.  Jafnframt er um að ræða umsjón og eftirlit með landi og landsréttindindum á ca. 2993 ha svæði sem markast af deiliskipulagi fyrir svæði í Kerlingarfjöllum sem samþykkt var í sveitarstjórn Hrunamannahrepps 9. júní 2014.

Sú kvöð fylgir lóðinni undir hálendismiðstöðinni að leigutaka er skylt að leysa til sín öll mannvirki á henni óski eigendur þeirra eftir því.

Umrætt svæði er á þjóðlendu (Hrunamannaafrétti) skv. úrskurði óbyggðanefndar í máli nr. 5/2000. Í ljósi þess þarf leyfi sveitarfélagsins Hrunnamannahrepps til að nýta land og landsréttindi á svæðinu, sbr. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlenda og áfrétta. Jafnframt þarf samþykki forsætisráðuneytisins þar sem umrædd nýting á að varalengur en til eins árs, sbr. 2. mgr. 3. gr. sömu laga.

Skilmálar sem einkum verður litið til við ákvörðun um leyfisveitingu á umræddu svæði eru eftirfarandi. Ekki skal litið svo á að röðun þeirra gefi til kynna vægi einstakra skilmála innbyrðis:

– hvernig viðkomandi hyggst nýta lóðina í þeim tilgangi að hafa þar þjónustu fyrir ferðamenn og aðra sem eiga leið um svæðið,

– hvað viðkomandi aðili vill greiða háa leigu fyrir notkun á umræddum reit og til hversu langs tíma. Sveitarfélagið mun í ljósi samkeppnissjónarmiða leitast við að fá markaðsverð fyrir leigu á umræddu svæði og að leigutími sé ekki til lengri tíma en 25 ár.

– frágangur mannvirkja og annarrar starfsemi. Sveitarfélagið mun sérstaklega líta til þess að frágangur verði með þeim hætti að samræmist landslagi vel og stingi ekki í stúf við umhverfið að öðru leyti,

– reynsla viðkomandi aðila af rekstri gisti- og afþreyingarþjónustu, s.s. gistihúsa á miðhálendinu og starfsemi fjallaskála,

-reynslu af gerð og viðhaldi göngustíga og annnarra ferðaþjónustutengdra mannvirkja.

Upplýsingar um drög að lóðablaði og deiliskipulag svæðisins má nálgast á skrifstofu Hrunamannahrepps, Akurgerði 6, 845 Flúðum. Hér má sjá lóðablaðKerlingarfjöll-deiliskipulagDeiliskipulag_breyting og Deiliskipulag_greinagerð.

Áhugasamir aðilar vinsamlegast sendið tillögu að notkun á umræddu svæði til sveitarfélagsins Hrunamannahrepps, eigi síðar en 27. apríl n.k.