Hér njótum við auðlindanna

evaadmin Nýjar fréttir, Pésinn

 

Mikið sem við erum lánsöm að vera nútímafólk. Við finnum til með forfeðrum okkar þegar við á þorrablótum syngjum hástöfum um bóndann sem horfir hryggur á stabbann sinn, um búrið sem er að verða autt og búið sem er að verða snautt og vitum að fyrir ekki svo mörgum áratugum þá var krumla veturs konungs það sem fólk óttaðist hvað mest. Við minnumst núna þessarar lífsbaráttu forfeðranna þegar frost, snjór og rok virðist hafa tekið sér varanlega búsetu á okkar harðbýla landi og þá er ég afar hamingjusöm að vera nútímakona. Þegar frostið fer yfir tuttugu gráður þá hækkar maður á ofninum og fer í heitt bað. Hér í Hrunamannahreppi búum við við þau gæði að gnægð er af heitu vatni og íbúar borga auk þess minnst allra á Íslandi fyrir heita vatnið. Það eru lífsgæði sem forfeður okkar gátu ekkieinu sinni ímyndað sér verða að veruleika. Lífsgæði sem við sjáum núna að eru ekki sjálfsögð þegar víða í nágrannabyggðum er orðinn verulegur skortur að heitu vatni. Þessir vetrarmánuðir eru nýttir til að undirbúa framkvæmdir sumarsins enda margt sem þarf að gera þennan stutta tíma sem viðrar til framkvæmda utandyra. Það er ánægjulegt að sjá verkefni eins og nýja hálendismiðstöð í Kerlingarfjöllum verða að veruleika en fyrstu gestir munu mæta þar í byrjun júlí. Framundan eru viðræður við þá sömu aðila um uppbyggingu á fjallaskálum á Hrunamannafrétti.

Breytingar voru gerðar á afslætti eldri borgara og öryrkja af fasteignaskatti þannig að nú geta þeir allra tekjulægstu fengið 100% niðurfellingu. Við álagningu ársins kom í ljós að fleiri en áður fá nú notið afsláttar sem er já- kvætt. Aukakostnaður sveitarfélagsins vegna þessa er um 1 m.kr..

Það er gaman að búa í Hrunamannahreppi. Það hefur komið mér ánægjulega á óvart hversu ríkt og líflegt mannlífið er hér í sveitarfélaginu. Það byggir aðöllu leyti á ykkur sem takið þátt, undirbúið, skipuleggið og ekki síst mætið á þær samkomur sem hér eru haldnar.

Við sjáumst vonandi öll á hjónaballinu!

Aldís Hafsteinsdóttir
Sveitarstjóri

 

Pésinn í febrúar