Ákveðið var á fundi sveitarstjórnar þann 18. ágúst að ráðast í útboð við gatnagerð í fyrstu götu Byggða á Bríkum. Á þessum sama fundi var samþykkt að leita til íbúa og annarra áhugasamra og kalla eftir tillögum að nöfnum á göturnar í þessu nýja hverfi
Tillagan sem samþykkt var er svohljóðandi:
Sveitarstjórn samþykkir einnig að fela sveitarstjóra að kalla eftir tillögum frá íbúum að nöfnum á göturnar í hverfinu. Skuli tillögur annað hvort enda á -byggð eða – tangi enda er slík ending í takti við staðhætti.
Eins og þarna kemur fram er gert ráð fyrir að götuheitin skuli bera endinguna -byggð eða -tangi.
Í því skipulagi sem samþykkt hefur verið eru 8 götur sem allar þurfa að heita eitthvað. Vinnuheiti þeirra tveggja sem eru að fara í gang eru Norðurtangi og Langitangi en þau nöfn eru ekki heilög ef aðrar og enn betri hugmyndir koma fram. Það væri skemmtilegt að nefna götur í þessu hverfi við eitthvað sem fólk tengir við sögu og/eða umhverfi staðarins og sveitarfélagsins. Svo nú er um að gera að láta hugann reika.
Tillögum skal skila á netfangið hruni@fludir.is fyrir 5. september 2022.
Myndin sýnir ekki endanlegt skipulag hverfisins en göturnar eru á réttum stað.