ÍSLAND – ALLT ÁRIÐ 2011 – 2014, Verk- og markaðsáætlun.

Sigmar Sigþórsson Aðsendar fréttir

22.8.2011

„Ísland – Allt árið“ – september 2011- september 2014

Verk- og markaðsáætlun

Í framhaldi af yfirlýsingu ríkisstjórnar vegna kjarasamninga til þriggja ára frá 5. maí 2011 um fjölgun ferðamanna og starfa yfir vetrartímann hefur ríkisstjórnin ákveðið að efna til samstarfs opinberra aðila, einkaaðila og sveitarstjórna undir verkefnisheitinu „Ísland – Allt árið“

Samstarfsaðilar að verkefninu eru þegar: iðnaðarráðuneytið, Samtök verslunar og þjónustu, Samtök ferðaþjónustunnar, Icelandair, Iceland Express, Reykjavíkurborg og Íslandsstofa.

Íslandsstofa sér um framkvæmd verkefnisins „Ísland – Allt árið“. Verkefnið er til þriggja ára og er þegar hafinn undirbúningur vetrarátaks sem hefst á haustmánuðum. Samhliða er unnið að langtíma verk- og markaðsáætlun.

Verkefnið hefur þann tilgang að jafna árstíðarsveiflu í komu ferðamanna og skapa þannig ný störf og auka arðsemi af greininni. Verkefnið mun byggja á þeirri fjárfestingu sem lögð hefur verið í markaðsátakið Inspired by Iceland og vinna áfram með það vörumerki. Það beinist fyrst og fremst að því að auglýsa og kynna Ísland sem áfangastað allt árið, en um leið verður leitast við að virkja almenning á Íslandi til þátttöku í verkefninu.

Einnig verður horft til úrvinnslu og niðurstaðna úr verkefninu Vetrarferðaþjónusta sem verið er að vinna sumarið 2011, af hagsmunaaðilum í ferðaþjónustu auk ráðuneytis ferðamála.

Markmið verkefnisins:

„Að styrkja ímynd Íslands sem áfangastað ferðamanna allt árið um kring“.

„Að fjölga ferðamönnum utan háannar um 100.000 frá september 2011 – september 2014 eða um 12% á ári“

„Að auka verslun erlendra ferðamanna þannig að endurgreiðsla af VSK til ferðamanna utan háannar aukist úr 560 milljónum í 800 milljónir á tímabilinu“

 

Verkþættir og markaðssetning

Verkefnið mun nýta reynslu, þekkingu og verðmæti Inspired by Iceland. Ætlunin er að byggja upp slagkraft með samþættu markaðsátaki undir sterkri yfirskrift og gefa fyrirtækjum þannig tækifæri til þess að efla kynningarstarf sitt beint til neytenda og viðskiptavina. Verkefnið á að skapa stemningu á meðal íslensks almennings sem stuðlar að þeirri ímynd að Ísland sé gott heim að sækja árið um kring. Höfðað verður til þess að Íslandsferð samræmist eftirsóknarverðum lífsstíl og sé minnisverð upplifun. Áherslan verður á að segja sögur frá Íslandi sem kynna landið sem ákjósanlegan áfangastað með sérstakri áherslu á haust, vetur og vor.

Markhópur: Verkefninu verður beint sérstaklega að neytendamarkaði og ráðstefnu- og fundamarkaði. Unnin verður sértæk markhópagreining til að ná settum markmiðum.

Markaðssvæði: Áhersla verður lögð á þau markaðssvæði sem bjóða upp á beint flug allan ársins hring. Gerð verður sértæk greining á því hvaða markaðir teljast vænlegastir til beinnar markaðssetningar til að ná settum markmiðum.

 

 

 

Val og uppbygging á kynningar – og markaðsefni:

  1. a.Vefur verkefnisins, samfélagsmiðlar og veflausnir fyrir síma:
    Vefur verkefnisins er Inspired by Iceland (www.inspiredbyiceland.com). Vefsíðan verður miðpunktur átaksins og öflug notkun samfélagsmiðla og nýjustu upplýsingatækni, s.s. fyrir síma og snjalltölvur höfð að leiðarljósi. Þeir samfélagsmiðlar sem verða notaðir eru m.a.: Facebook, Twitter, Foursquare, Tumblr, Google+, Vimeo og Flickr. Vefur verkefnisins verður gerður aðgengilegri fyrir þátttakendur verkefnisins og endurbættur með hliðsjón af reynslu Inspired by Iceland verkefnisins, sem og nýjustu upplýsingatækni. Hugað verður sérstaklega að því að bæta úr flokkaskiptingu og sýnileika hagsmunaaðila, s.s. með „shopping guide“.
  2. b.Birtingar í erlendum miðlum bæði á prenti, umhverfisauglýsingar og vefauglýsingar (stórir miðlar erlendis og auglýsingar á samfélagsmiðlum s.s. facebook, PPC).
  3. c.Almannatengsl og viðburðir: Lögð verður mikil áhersla á almannatengsl og upplýsingamiðlun. Samið verður við erlenda PR-skrifstofu um að koma með öflugum hætti upplýsingum á framfæri við erlenda miðla með víða skírskotun. Mögulegt er að skipulagðir verði viðburðir erlendis/innanlands, sem hafa alþjóðlega skírskotun og innbyggða möguleika til þess að laða að ferðamenn til landsins og að vefsíðu verkefnisins. Þetta verður gert með margvíslegum markaðs- og almannatengslaaðgerðum.
  4. d.Hönnun og framleiðsla: Hannað verður markaðsefni í takt við áherslur verkefnisins. Hér er átt við hönnun alls prentefnis, vefborða og umhverfisauglýsingar, sem og vefsíðu og snjallsímalausnir. Einnig verða framleidd hágæða myndbönd í bestu gæðum sem sýna Ísland sem ákjósanlega áfangastað.
  5. e.Innlent tengslastarf: Haldinn verður stefnumótunarfundur með hagsmunaaðilum, fundað með erlendum söluaðilum, kynningarfundur fyrir ferðaþjónustuaðila innanlands, sett verður af stað hugmyndasamkeppni fyrir landsmenn um ónýtt tækifæri í landskynningu.
  6. f.Árangursmælingar: Gerðar verða árangursmælingar með spurningalistum og rýnihópum bæði áður en verkefni hefst, á meðan á því stendur og svo við lok þess. Einnig mun vöktun á netinu fara fram.