Jólalegt á Flúðum

Steinunn Ósk Kolbeinsdóttir Nýjar fréttir

Nú er búið að skreyta mikið á Flúðum og gera jólalegt, bæði hefur sveitarfélagið sett upp jólalýsingar og einstaklingar eru duglegir að gera húsin sín jólaleg. Jólasnjórinn sem féll fyrsta sunnudag í aðventu setur svo enn jólalegri svip á umhverfið.

S.l. sunnudag var haldin aðventuhátíð í  Félagsheimili Hrunamanna á Flúðum. Þetta var notaleg fjölskyldustund þar sem fjölmargir kórar tróðu upp, fólk á öllum aldri, frá sex ára og þeir elstu voru á níræðisaldri. Sr. Eiríkur Jóhannsson, sóknaprestur og prófastur flutti athyglisverða hugvekju. Kvenfélagskonur sáu um jólabasar með kökum og kruðeríi. Einnig seldu þær jólasúkkulaði með vöfflum og rjóma allur ágóði rann til kaupa á hjartastuðtæki.