Sveitarstjórn Hrunamannahrepps hefur haft þungar áhyggjur af neikvæðum afleiðingum langrar lokunar vegarins við Stóru Laxá. Fulltrúar Vegagerðarinnar voru kallaðar til fundar í ráðhúsinu vegna þessa í vikunni þar sem óskað var skýringa á þessari stöðu.
Oddviti lagði síðan fram eftirfarandi bókun, fyrir hönd sveitarstjórnarinnar allrar, við upphaf sveitarstjórnarfundar þann 2. febrúar 2023:
Sveitarstjórn hefur ríkan skilning á þeim aðstæðum sem sköpuðust og gerðu það nauðsynlegt að vegur nr. 30 við Stóru-Laxá var rofinn til að bjarga þar mannvirkjum. Nú hefur lokunin aftur á móti varað lengur en nokkurn gat grunað og í upphafi var gert ráð fyrir.
Eru aðstæður nú orðnar grafalvarlegar og þessi langa lokun hefur þegar haft gríðarleg áhrif á samfélagið allt hér í Uppsveitum Árnessýslu.
Rétt er að minna á að umræddur vegur er stofnvegur og þeim er ætlað að tengja saman byggðir landsins.
Með lokuninni er skorið á mikilvæga samgönguæð og má þar til dæmis minna á skólaakstur barna sem lengst hefur um allt að klukkustund á dag í verstu tilfellum og var hann þó ærinn fyrir. Auk þess er ljóst að umrædd lokun hefur haft afdrifarík áhrif á atvinnulíf og ekki síst ferðaþjónustu.
Sveitarstjórn telur að með auðveldum hætti hefði verið hægt að opna veginn með einföldu ræsi í framhjáhlaupinu þar sem nú rennur nánast ekkert vatn um eftir að Stóra-Laxá ruddi sig. Í ljósi þessa skorar sveitarstjórn á veghaldara að gera allt sem mögulegt er til að tryggja umferð um veginn þegar í stað.
Síðdegis í gær barst síðan minnisblað frá Vegagerðinni þar sem koma fram skýringar á þessari stöðu en jafnframt gert grein fyrir því að vinna við að tengja veginn muni vonandi hefjast á mánudaginn kemur þannig að hægt sé að opna fyrir skólabíla sem allra fyrst. Áætlað er að opna fyrir almenna umferð um gömlu brúna í lok næstu viku.