Meiriháttar maskína

Steinunn Ósk Kolbeinsdóttir Greinar

Athafna- og hugvitsmaðurinn Guðmundur Magnússon trésmíðameistari á Flúðum hefur flutt inn vél sem sagar niður tré þannig að úr verða litlar skífur sem nýta má sem klæðningu utan á hús. Með tilkomu skógræktarverkefna sem stjórnvöld hafa stuðlað að og styrkt á undanförnum áratugum, fellur mikið til af innlendum trjávið við grisjun. Magn innlends trjáviðar á aðeins eftir að aukast þegar til framtíðar er litið og nauðsynlegt er að nýta hann sem best. Sá sem þessa grein ritar lagði fram þingsályktunartillögu sem samþykkt var á Alþingi um nýtingu innlends trjáviðar sem til fellur við grisjun. Þingsályktunartillagan var samþykkt árið 2003. Hugmyndin að tillögunni varð til þegar starfsmenn Límtrésverksmiðjunnar á Flúðum framleiddu brú úr íslensku lerki.  Of lítill gaumur hefur verið gefinn að því að hér er um veruleg verðmæti að ræða og miklir framtíðarmöguleikar fólgnir í að nýta innlendan trjávið. Á tímum sem þessum eigum við að kappkosta að vera sem sjálfbærust á sem allra flestum sviðum og gera það sem í okkar valdi stendur til þess að spara dýran gjaldeyri og nýta sem best þær afurðir sem náttúran gefur. Gamalt máltæki segir: „mjór er mikils vísir“. Vonandi leiðir þetta jákvæða framtak Guðmundur Magnússonar til þess að enn fleiri láti sig varða að nýta verðmæti íslenskra skóga. Skógarnir hafa ekki einungis fagurfræðilegt gildi og góð áhrif á veðurfar heldur skapa þeir einnig verðmæti sem skylda okkar er að nýta. Framtak Guðmundar er lofsvert framtak í þá átt.

 

Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri