Menningin skapar atvinnu og stolt

Steinunn Ósk Kolbeinsdóttir Greinar

Um síðustu helgi var  safna- og menningarhelgi á Suðurlandi. Þar var vakin athygli á því hve blómlegt safna og menningarstarf er unnið á Suðurlandi. Allt frá Hornafirði til Vestmannaeyja og uppá Hellisheiði. Helgin undirstrikar framþróunina og hversu miklu máli menningarstarfið hefur fyrir íbúa Suðurlands sem og ferðaþjónustuna en menningartengd ferðaþjónusta er hluti af nútímanum. Hinn almenni ferðamaður hefur áhuga á að kynnast því sem er sérstakt í hverju héraði hvort heldur er varðandi sögu, menningu eða sérstöðu í mat og matargerð. Ég minnist þess þegar unnið var að uppbyggingu sögusetursins á Hvolsvelli undir forystu Sæmundar Holgerssonar tannlæknis og fleiri góðra manna, voru uppi raddir um að þetta myndi aldrei ganga en sagan sýnir okkur annað og að mörg samfélög hafa fetað svipaða slóð þar sem komið hefur verið upp menningarsetrum sem skapa fjölda manns atvinnu og eflir stolt heimamanna og vekur athygli á sérstöðu og þess er efst er á baugi í hverju sveitarfélagi. Safnahelgin á Suðurlandi hófst með því að haldið var uppá 60 ára afmæli Byggðasafnsins í Skógum. Þegar fjallað er um það safn koma mér í hug ljóðlínum Eyfellingsins Stefáns Harðar Grímssonar þar sem segir:

Á mjóum fótleggjum sínum

Koma mennirnir eftir hjarninu

Með fjöll á herðum sér.

Þessi líking á svo sannarlega við leiðtogahlutverk Þórðar Tómassonar sem hefur lagt sitt ævistarf og líf í safnið. Hann hefur svo sannarlega „flutt fjöll á herðum sér“. Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður orðaði þetta svo vel þegar hún sagði að Þórður væri fremstur meðal safnafólks á Íslandi. Þórður þótti í upphafi hálfgerður sérvitringur að vera að halda uppá og varðveita ýmiskonar „gamalt drasl“ eins og það var kallað. Nú sjáum við hve miklu starf hans hefur skilað. Að Skógum koma 43 þúsund gestir í safnið á ári, safnið er rekið með hagnaði og skapar hópi fólks vinnu enda stærsta safn utan Reykjavíkur. Rætt var um og mikil áhersla lögð á að í Skógum verði sett upp fræðasetur á vegum Háskólafélags Suðurlands. Tillagan er afar spennandi og kemst vonandi til framkvæmdar sem allra fyrst. Safnahelgin sýnir og sannar fjölbreytni safna- og menningarflórunnar á Suðurlandi og er ánægjulegt og ber að þakka því fólki sem hrint hefur þessum hugmyndum í framkvæmd. Menningarsamningur Menntamálaráðuneytisins og sveitarfélaga á Suðurlandi er í rauninni undirstaða þess að menningarstarf sé styrkt og viðurkennt á Suðurlandi sem og í öðrum landsfjórðungum. Þrátt fyrir efnahagslegar þrengingar treystum við á áframhaldandi styrkveitingu til menningarstarfs. Enn eigum við margt ógert varðandi safna- og menningarstarf á Suðurlandi þó að mjög margt hafi áunnist og verið fært til betri vegar á síðustu árum en víst er að hér er um  gefandi verkefni að ræða sem sífellt er hægt að auka, bæta og breyta.

 

Ísólfur Gylfi Pálmason,

situr í stjórn Menningarráðs Suðurlands og Listasafns Árnessýslu.