Miklu færri fengu lóðir en vildu

evaadmin Nýjar fréttir

Lóðum fyrir alls 25 íbúðir við Fannborgartanga, fyrsta áfanga Byggðar á Bríkum, var úthlutað á fundi sveitarstjórnar þann 2. febrúar 2023.  Alls bárust 150 umsóknir um þær lóðir sem auglýstar voru. Umsækjendur sem uppfylltu ákvæði reglna um lóðaúthlutun voru 146. Dregið var úr umsóknum.  Til vara voru dregin nöfn sem verða boðnar lóðirnar í réttri röð komi til þess að einhverjum þeirra verði skilað á síðari stigum.

 

Um er að ræða 8 íbúðir í fjórum parhúsum, 8 íbúðir í tveimur fjögurra íbúða raðhúsum, 6 íbúðir í tveimur þriggja íbúða raðhúsum og þrjár lóðir fyrir einbýlishús.

Öllum lóðum var úthlutað en aldrei áður hafa jafn margir sótt um lóðir í Hrunamannahreppi.  Er ljóst að mikil eftirspurn er eftir húsnæði í sveitarfélaginu og því mikilvægt að áfram verði haldið við næsta áfanga uppbyggingar í hverfinu.

 

Á fundinum óskaði sveitarstjórn lóðarhöfum til hamingju með lóðir sínar og vonaði um leið að þessi úthlutun sé upphafið að kröftugri uppbyggingu Hrunamannahrepps til framtíðar.

 

Í fundargerð sveitarstjórnar geta áhugasamir kynnt sér hverjir duttu í lukkupottinn í gær.  Hér má sjá fundargerðina:  16. fundur sveitarstjórnar

 

Svona til skemmtunar má geta þess að Morgunblaðið fjallaði um þennan mikla áhuga á lóðum í Hrunamannahreppi í blaði dagsins og á meðfylgjndi mynd má sjá þá umfjöllun.