Oddvitapistill

Marta Jónsdóttir Nýjar fréttir

Umhverfi sundlaugar var lagfært til muna og ein íbúð sveitarfélagsins var seld á árinu. Merkingar á húsum sveitarfélagsins koma vel út og verður meira um merkingar í vor, þá bæði gatnamerkingar og umferðamerkingar þar sem nú er 30 km. hámarkshraði í íbúðargötum á Flúðum. Haldið verður áfram með malbikun á Flúðum í sumar og er Ásastígur næstur, stefnt er að því að allar götur á Flúðum verði með bundnu slitlagi eftir 3. ár. Þá verður þak á gluggagangi í skólanum endurnýjað, málað verður þak á íþróttahúsi, haldið áfram að klæða „kennara“ íbúðirnar, svo er stefnt að lagfæringum á eldhúsi í félagsheimili. Áfram verður unnið í listigarðinum, en í vetur á að koma fyrir ljósum í stuðlaberg frá Hrepphólum, sem síðan verður komið fyrir í garðinum.

Heilsuþorpið er ennþá í vinnslu, íslensku bankarnir sýna verkefninu nú meiri áhuga, en beðið er eftir meiri upplýsingum frá kínverjum um hvernig þeir komi að fjármögnun verkefnisins, eins hefur verið unnið að því að uppfæra rekstraráætlun heilsuþorpsins. Sustainable sites hefur samþykkt alla þætti uppbyggingarinnar sem snerta sjálfbærni og vistvænar áherslur, en góðir hlutir gerast hægt.

Eigendur minjasafns Emils Ásgeirssonar hafa undirritað viljayfirlýsingu þess efnis að safnið komist í eigu Hrunamannahrepps, samhliða því þarf að semja við nágrannasveitarfélögin og Byggðasafn Árnesinga, en það mun hafa umsjón með daglegum rekstri safnsins. Þá hefur verið rætt um stofnun á Fjalla Eyvindar setri í Hrunamannahreppi. Væri spennandi að geta haldið upp á 300 ára afmæli hans með opnun á safni árið 2014.

Rekstur Hitaveitu Flúða gengur vel og gott fyrir sveitarfélagið að eiga svona gullmola, en af og til koma fyrirspurnir um orkumál til okkar bæði stór og smá. Þá er mikilvægt að geta brugðist við því á viðeigandi hátt. Skólaþingið síðasta vetur tókst mjög vel og verið er að vinna skólastefnu bæði fyrir grunn- og leikskóla, einnig stefnu fyrir félagsmiðstöðina.

Sorpmál. Tekin var ákvörðun um að fara í tveggja tunnu kerfi á öllum heimilum í sveitinni, þar sem blátunnu verður bætt við og í hana má fara allur pappír sem fer svo til endurvinnslu. Stefnt er að því að fara í þetta í vor, og verður það kynnt vel þegar nær dregur. Hafist var handa við reglulega tæmingu á rotþróm í sveitarfélaginu í sumar og var seyrunni dreift inn á afrétt með góðum árangri. Áhugavert verkefni sem önnur sveitarfélög horfa til .

Ferðaþjónustan eykst allaf á svæðinu og er stækkunarhugur í ferðaþjónustuaðilum vegna þessa, enda nauðsynlegt að geta boðið ferðamönnum að staldra við og njóta verunnar hér í lengri eða skemmri tíma. Unnið er að stofnun Hollvinasamtaka Kerlingafjalla, að því standa Fannborg, Landvernd og Hrunamannahreppur, tilgangur þessara samtaka er að styðja og efla uppbyggingu á Kerlingafjallasvæðinu.

Í lok árs gafst Íslendingum kostur á að sækja um IPA styrk til ESB og Uppsveitir sendu sameiginlega umsókn inn. Sótt var um kr. 50 milljónir sem fara eiga í verkefni í ferðaþjónustunni með áherslu á náttúru, menningu, heilsu og uppbyggingu á nýjum ferðamannastöðum og markaðsetningu í kringum það.  

Unnið verður að heildarskipulagi Flúða í vetur og í því sambandi er stefnt að því að íbúar sveitarfélagsins fái að kjósa, samhliða þingkosningum í vor, um tvær mögulegar lausnir á gatnamótunum við búðina, annars vegar lítið hringtorg, hins vegar aflíðandi beygju á Hrunamannavegi.    

Samstarf sveitarfélaga á svæðinu eykst stöðugt, nú um áramót tók til starfa nýtt tæknisvið uppsveita þar sem ráðinn var verkfræðingur til starfa, þetta mun auka skilvirkni á öllum tækniþáttum sveitarinnar. Þá mun Ásahreppur væntanlega ganga inn í Skipulags- og byggingaembættið nú í janúar. Nú um áramót sameinaðist Slökkvilið Flúða, Brunavörnum Árnessýslu.  

Að lokum óska ég íbúum og gestum Hrunamannahrepps gleðilegs árs og friðar.                

Ragnar Magnússon oddviti.