Óskað eftir ábendingum vegna landsáætlunar um úrgang

Sigmar Sigþórsson Nýjar fréttir

Samhliða landsáætluninni vinnur umhverfisráðuneytið að innleiðingu úrgangstilskipunar Evrópusambandsins 2008/98/EB í íslenskt lagaumhverfi. Tilskipunin setur m.a. viðmið um það hvenær úrgangur hættir að vera úrgangur og verður að hráefni og hvernig greina skuli milli úrgangs og aukaafurða. Þá kveður tilskipunin á um úrgangsmeðhöndlun, s.s. að hún skuli hvorki stofna heilsu manna í hættu né skaða umhverfið, einkum vatn, loft og jarðveg.

Í tilskipuninni er mælt fyrir um hver forgangsröð við meðhöndlun á úrgangi skuli vera. Í fyrsta lagi skal koma í veg fyrir myndun úrgangs, í öðru lagi að undirbúa úrgang fyrir endurnotkun, í þriðja lagi að endurvinna úrganginn, í fjórða lagi að endurnýta hann en síðasta skrefið er að farga honum. Þannig er leitast við á öllum stigum að meðhöndla úrganginn til að koma í veg fyrir förgun.

Tilskipunin byggir á meginreglunum um mengunarbótarregluna (polluter pays principle) og framleiðendaábyrgð (producer responsibility). Þá kveður hún á um að gerð sé áætlun um meðhöndlun úrgangs og hvernig koma eigi í veg fyrir myndun hans.

Samráðsferli vegna landsáætlunarinnar stendur til 1. desember næstkomandi og er fólk hvatt til að koma tillögum og ábendingum vegna gerðar hennar skriflega fyrir þann tíma til: Umhverfisráðuneytisins, Skuggasundi 1, 150 Reykjavík, eða með því að senda tölvupóst á netfangið postur@umhverfisraduneyti.is.

Landsáætlun um úrgang verður send út til kynningar þegar drög að henni liggja fyrir fyrri hluta næsta árs og tekur þá við lögboðið sex vikna kynningarferli.