Miklar framkvæmdir í Flúðaskóla
„Við sjáumst vonandi öll á hjónaballinu“ voru lokaorð pistils sveitarstjórans í síðasta Pésa. Núna er hjónaballið afstaðið og þar var met slegið í mætingu. Um 430 manns skemmtu sér saman í fallega skreyttu íþróttahúsinu þetta kvöld! Fyrir mig sem hef aldrei áður verið á hjónaballi í Hrunamannahreppi kom allt ánægjulega á óvart. Þúsund þakkir til nefndarinnar fyrir einstakan undirbúning, skipulag, gleði og dugnað. Það virðist vera svo gaman að vera í nefndinni að hamingjuóskir eru vel við hæfi til þeirra sem skipa nýja nefnd. Nú látum við okkur hlakka til næsta hjónaballs og reyndar allra skemmtilegu viðburðanna sem framundan eru þangað til.
Félagslífið hér í sveit er með eindæmum gott og því ágætt að minna íbúa og aðra lesendur Pésans á að fylgjast vel með tilkynningum um viðburði sem birtast munu á nýrri heimasíðu sem vonandi fer í loftið innan skamms.
Framundan eru framkvæmdir sumarsins en stundum er ekki einfalt að sjá alla hluti fyrir. Nú hefur komið í ljós að nauðsynlegt er að skipta um þak á stórum hluta Flúðaskóla (kvennavistinni). Framkvæmd sem ekki er gert ráð fyrir en sem mun kosta um 60-70 m. kr. skv. áætlunum sérfræðinga. Í því ljósi hefur sveitarstjórn samþykkt að fresta fyrirhuguðum breytingum á íþróttahúsi og félagsheimili en með þeim átti að bæta aðstöðu líkamsræktar og koma upp aðstöðu fyrir sjúkraþjálfara. Gott verkefni og þarft en því miður er ekkert annað að gera en að bíta í skjaldarrendur og ráðast svo í þessi verkefni á árinu 2024.
Nú er hafin vinna við gerð nýrrar skólastefnu fyrir Hrunamannahrepp. Sveitarstjórn hefur fengið dr. Ingvar Sigurgeirsson, prófessor við Háskóla Íslands, til að leiða vinnuna. Stýrihópur hefur þegar tekið til starfa og munu íbúar væntanlega verða varir við þetta verkefni næstu mánuðum.
Sveitarstjóra í samvinnu við verkefnisstjóra Heilsueflandi samfélags hefur verið falið að vinna að sumarnámskeiði fyrir yngstu börn grunnskólans en með vel skipulögðu sumarstarfi væri hægt að mæta þörfum mjög margra fjölskyldna þar sem foreldrar og forráðamenn barna eiga sjaldnast jafn langt sumarfrí og börnin. Vonum við að það takist að létta líf þessa hóps til muna með skemmtilegri afþreyingu í sumar.
Njótum daganna og hækkandi sólar.
Aldís Hafsteinsdóttir
Sveitarstjóri