Pésinn í Nóvember – Pistill sveitarstjóra

evaadmin Nýjar fréttir

Í nóvemberskýrslu Þjóðskrár kemur fram að íbúum hefur
fjölgað í Hrunamannahreppi um 45 frá 1. desember 2021
en íbúar eru nú 873 talsins. Nemur fjölgunin 5,4% á ársgrundvelli sem er vel yfir landsmeðaltali sem er um 2,5%
á sama tímabili. Ekki er ólíklegt að þessi þróun muni
halda áfram þar sem framundan er tímabil uppbyggingar í
sveitarfélaginu.

Framkvæmdir hefjast
Nú eru hafnar framkvæmdir á íbúðalóðum við Birkihlíð
og fleirum hefur verið úthlutað. Þar er enn óúthlutað
nokkrum lóðum fyrir verslun og þjónustu sem ætti að vera freistandi fyrir athafnasama einstaklinga og fyrirtæki að skoða nánar.
Gröfutækni ehf átti hagstæðasta tilboðið í gatnagerð fyrsta áfanga
Byggða á Bríkum kr. 172.852.200. Var tilboðið um 94% af kostnaðaráætlun (kr. 184.619.350,- ). Munu framkvæmdir á svæðinu hefjast fljótlega. Gert
er ráð fyrir að framkvæmdum ljúki sumarið 2023 en að lóðir verði byggingahæfar
á vormánuðum. Með framkvæmdum á Byggð á Bríkum er hafin stærsta uppbygging íbúðabyggðar sem nokkurn tíma hefur verið ráðist út í sveitarfélaginu.

Ný heimasíða, enn betri þjónusta
Sveitarstjórn hefur samþykkt að ráðist verði í gerð nýrrar heimasíðu fyrir sveitarfélagið sem betur getur uppfyllt kröfur um góða og skilvirka upplýsingagjöf.
Hefur verið samið við fyrirtækið Stefnu ehf um gerð heimasíðunnar en það fyrirtæki hefur unnið með fjölmörgum sveitarfélögum undanfarin ár og þekkir því vel
hvað þarf að gera til að vel takist til.
Í stækkandi samfélagi þar sem fjölmargt er framundan er mikilvægt að í sífellu
sé skoðað hvar við erum að standa okkur vel, hverjir eru styrkleikar okkar, hvað
við getum gert betur og hvað megi bæta. Í því skyni hefur verið ákveðið að leita
til KPMG og óska eftir úttekt á eignasjóði, áhaldahúsi, veitum og framkvæmdasviði. Á þessum sviðum starfa afar dugmiklir einstaklingar sem bera hag sveitarfélagsins fyrir brjósti og því er mikilvægt að hlúð sé að þeim mannauði með eins
góðum hætti og kostur er.

Að lokum er rétt að minna á fjölbreytt tækifæri til afþreyingar og ræktunar líkama
og sálar í sveitarfélaginu. Félagsheimilið okkar iðar af lífi frá morgni til kvölds og
það gera íþróttamannvirkin einnig. Framundan er síðan aðventan með tilheyrandi
samkomum. Munum að njóta daganna og alls þess sem er í boði. Þannig verður
lífið enn skemmtilegra.

Aldís Hafsteinsdóttir
Sveitarstjóri

 

⇒ Smellið hér til að lesa Pésann