Skrautjurtir, söngdúfur og sveitakaffi á Ártanga

Sigmar Sigþórsson Nýjar fréttir

Skrautjurtir, söngdúfur og sveitakaffi á Ártanga

Upplitsviðburður maímánaðar verður í gróðrarstöðinni Ártanga í Grímsnesi laugardaginn 19. maí kl. 15.30. Þar taka húsráðendur, Sigurdís Edda Jóhannesdóttir og Gunnar Þorgeirsson, á móti gestum, leiða þá um gróðurhúsin og segja frá ræktuninni.

Á Ártanga eru ræktaðar skrautjurtir allan ársins hring; pottaplöntur, laukblóm og sumarblóm. Þar er heimafólk ekki aðeins með græna fingur, heldur líka tónlist í blóðinu – sem er heppilegt fyrir blómin, sem ku vera sérlega músíkölsk og njóta þess að láta dekra við sig með ljúfum tónum.

Að lokinni skoðunarferð um gróðrarstöðina verður því slegið á létta strengi – og þar koma Söngdúfurnar sterkar inn. Söngdúfurnar eru hópur kvenna sem hittist einu sinni til tvisvar á ári og syngur saman. Þær hefja upp raust sína um miðjan dag og síðan er sungið sleitulítið vel fram yfir miðnættið, aldrei sama lagið tvisvar. Svo vel vill til að næsti Söngdúfuhittingur er einmitt ráðgerður á Ártanga þennan laugardag og bjóða þær gestum að taka þátt í upphafi dagskrár. Allir taka undir – og síðan verður kaffi og kleinur á borð borið.