Það er sóun að loka urðunarstaðnum í Kirkjuferjuhjáleigu!

Steinunn Ósk Kolbeinsdóttir Greinar

Við stöndum frammi fyrir þeirri nöturlegu staðreynd að ríkissjóður, sveitarsjóðir, fyrirtæki og einstaklingar þurfa nú um stundir á öllu sínu að halda til þess að halda  sjó eftir efnahagshremmingar sem tröllríða íslensku samfélagi og ótrúlega fáir einstaklingar bera mesta ábyrgð á. Ekki er enn útséð hvernig fer.

Eitt af því sem fylgir okkur mannfólkinu i neyslusamfélaginu er alls lags úrgangur og rusl. Í nútímasamfélaginu velta menn eðlilega fyrir sér meðferð þessara efna og á hvern hátt er hægt að lágmarka úrganginn og ekki síður hvort hægt sé að gera verðmæti úr honum með endurvinnslu. Það er einnig skylda okkar að reyna að lágmarka kostnað við þennan málaflokk  ekki síst m.t.t. efnahagsástandsins. Það er einnig staðreynd að fæstir vilja taka við þessum úrgangi. Hins vegar er alveg ljóst að nú og í framtíðinni skapa móttökustaðir úrgangs  atvinnu en ímynd þessa málaflokks og urðunarstaða er að breytast í jákvæða átt. Víða erlendis hefur náðst mikill árangur í þessum efnum og reyndar einnig hér heima. Ég hef átt þess kost sem fyrrverandi alþingismaður, þar sem ég sat m.a. í umhverfisnefnd, að skoða flesta urðunarstaði landsins. Sá urðunarstaður sem að mínu mati er einn hinn hreinlegasti og þar sem umgengnin er hvað best er urðunarstaðurinn í Kirkjuferjuhjáleigu. Sú nöturlega staðreynd blasir nú við  að honum verði lokað 1. desember n.k. þó að starfsleyfið renni ekki út fyrr en árið 2024. Þetta leiðir til stóraukins kostnaðar fyrir íbúa og fyrirtæki á Suðurlandi þar sem til stendur að aka öllu sorpi til Reykjavíkur. Ekki þarf að fjölyrða um hve ópraktíst  þetta er, það er í rauninni alveg sama hvernig litið er á málið. Út frá efnahagsástandinu, umferðarmálum og ástandi vega, mengun og fl.  Við erum í rauninni að færa störf sem hægt er að vinna á Suðurlandi til höfuðborgarinnar og ekki er á atvinnuleysið bætandi. Málið er viðkvæmt en í ljósi þessara staðreynda sem að framan greinir hvet ég skelegga og dugmikla sveitarstjórnarmenn í Ölfusi sem er eitt myndarlegasta og stöndugasta sveitarfélag landsins að endurskoða þessa afstöðu sína. Þó ekki væri nema að fresta ákvörðuninni þannig að stjórn Sorpstöðvarinnar geti unnið áfram að framtíðarlausn á þessum málaflokki á Suðurlandi.  Við höfum nú um stundir annað þarfara við peningana að gera en eyða þeim í sorpflutninga.

Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri