Kirkjur

Inn á heimasíðu Hrunaprestakalls má finna upplýsingar um safnaðarstarfið og fleira.

 

Hruni

HrunakirkjaHjá bænum Hruna, í Hrunamannahreppi, hefur staðið kirkja frá því um lok 12. aldar. Þá bjó í Hruna Þorvaldur Gissurarson af ætt Haukdæla, einn mesti höfðingi landsins, síðar stofnandi Viðeyjarklausturs.
Dýrlingar Hrunakirkju voru María Guðsmóðir, heilagur Tómas Becket erkibiskup af Kantaraborg, heilagur Þorlákur og heilög Katrín.
Í Hruna hafa ýmsir merkir prestar setið. Þar má nefna séra Jón Héðinsson, sem sat Hruna á árunum 1514-1542. Séra Jón lét lífláta sendimann Danakonungs, Diðrik af Myndin og menn hans í Skálholti og í Hruna.
Einnig má nefna Jóhann Kristján Briem sem var prestur í Hruna um miðja síðustu öld. Hann lét reisa núverandi kirkju.
Núverandi kirkja var byggð árið 1865. Hún er út timbri, járnvarin og tekur um 200 manns í sæti. Árið 1908 var kirkjan járnvarin, máluð og bætt á hana stærri turni, sem ef til vill var teiknaður af Rögnvaldi Ólafssyni arkitekt. Útlit kirkjunar nú er nálægt því sem var 1908.
Kirkjan á ýmsa góða gripi meðal annars fagra altaristöflu eftir danskan málara, Christian Tilly. Áður fyrr voru í kirkjunni fornar klukkur sem gefnar voru af Brynjólfi biskup Sveinssyni. Klukkurnar töpuðust frá staðnum í kringum 1930, en talið er að önnur þeirra sé í Skálholtskirkju.

Hrepphólakirkja

holakirkjaHrepphólakirkja er í Hrepphólum í Hrunamannahreppi og er jörðin landnámsjörð þar sem landnámsmaðurinn Þorbjörn jarlkappi bjó.
Prestakallið var lagt niður 1880 og telst kirkjan nú til Hrunaprestakalls.
Núverandi kirkja var reist árið 1909. Hún er úr timbri og er járnvarin. Árið 1903 var byggð kirkja, þar sem þrír merkustu byggingafrömuðir landsins komu að hönnun og byggingu. Má þar nefna Rögnvald Ólafsson húsameistara.
29. des 1908 gekk yfir Árnesþing gífurlegt fárviðri, sem var kallað kirkjuveðrið og fauk þá hluti kirkjunnar. Hún var síðan reist aftur úr því sem fauk en sumt var skemmt og því styttist hún um fimmtung.
Merkasti prestur þar var Jón Egilsson (1548-1636). Hann er einkum kunnur fyrir annála, sem hann skráði og þykja merkileg söguleg heimild. Af góðum gripum kirkjunnar má nefna altaristöflu eftir Ásgrím Jónsson.

Tungufellskirkja

tungufell05Tungufellskirkja stendur hjá bænum Tungufelli í Hrunamannahreppi, sem er sá bær sem er talinn liggja fjærst allra bæja á Suðurlandi frá sjó. Talið er að kirkja hafi staðið á Tungufelli frá því um 1200 og sennilega mun lengur. Kirkjan var helguð Andrési postula í kaþólskum sið. Tungufellskirkja var útkirkja í Reykjadalsprestakalli en frá Hruna síðan 1819 þegar Reykjadalsbrauð var sameinað Hrunaprestakalli.

Núverandi kirkjuhús í Tungufelli er lítið timburhús, reist árið 1856, og er kirkjan ein af elstu timburkirkjum á Íslandi. Kirkjan er um 22 fermetrar að gólffleti og rúmar um 30 manns í sæti, en í sókninni eru fjórir bæir.

Meðal dýrgripa kirkjunnar eru tvær fornar kirkjuklukkur sem hanga uppi í rjáfri á kirkjuloftinu. Þær eru taldar vera frá 12. öld. Einnig er þar lítill silfurkaleikur með patínu, og í Þjóðminjasafni Íslands er ævagamall, kross úr kirkjunni. Krossinn er 52 cm á hæð og hefur verið altariskross. Hann er heillegastur þeirra smeltkrossa, sem Þjóðminjasafnið á leifar af, og er merkilegur gripur fyrir marga hluta sakir. Eigendur Tungufells gáfu Þjóðminjasafni Íslands kirkjuna árið 1987.