Tilkynning til íbúa

Lilja Helgadóttir Nýjar fréttir

Kæru íbúar
Í gær var farið í að setja niður skipulag fyrir allar stofnanir sveitarfélagsins með tilliti til samkomubanns og þeirra takmarkanna sem tóku gildi í nótt. Þessar reglur geta breyst með stuttum fyrirvara og hvetjum við fólk til að fylgjast vel með.
Skipulagið er eftirfarandi:

Ráðhúsið:
Frá og með þriðjudeginum 17. mars verður skristofan lokuð þeim sem ekki starfa þar. Unnt verður að hafa sambandi við starfsmenn á hefðbundnum skrifstofutíma, 09:00 -16:00 í gegnum síma: 480-6600 og/eða með tölvupósti á hruni@fludir.is eða á viðkomandi starfsmann.

Bókasafnið:
Óbreyttur opnunartími verður á bókasafninu . Allar bækur sem koma út útláni verða settar í sóttkví í ákveðin tíma. Þeir sem koma á bókasafnið eru beðnir um að huga vel að handþvotti og sprittun.

Íþróttahúsið:
Íþróttahúsið verður lokað þessa vikuna og engar æfingar verða í húsinu. Nánari upplýsingar varðandi fyrirkomulag á æfingum koma síðar í vikunni.

Tækjasalur:
Tækjasalurinn verður lokaður í dag,mánudag. Unnið er að því að skoða hvort hægt sé að halda honum opnum. Nánari upplýsingar um fyrirkomulag á opnun verður auglýst síðar.

Sundlaugin:
Opnunartími sundlaugarinnar verður óbreyttur en fjöldatakmarkanir verða í laugina. Miðað er við að aldrei séu fleiri en 10 manns í einu í lauginni. Gufubaðið verður lokað. Fólk þarf að passa vel uppá allt hreinlæti og virði auglýst fjarlægðartakmörk.

Leikskólinn Undraland:
Breytingar eru á starfi leikskólans og eru þær eftirfarandi.
· Leikskólinn verður opinn 7:45-15:00.
· Tekið verður á móti sem nemur helmingi barna á hverri deild daglega.
· Meginlína er að hvert barn komi í leikskólann annan hvern dag, tvo daga aðra vikuna og þrjá daga hina og systkini fylgist að.
· Leikskólanum verður lokað kl.15:00 og tíminn eftir það nýttur til að ganga frá eftir daginn og undirbúa næsta dag (þvottur á álagssvæðum og sótthreinsun).
· Þeir foreldrar sem kjósa/geta haft börn sín heima meðan samkomubann er í gildi fá niðurfellingu á leikskólagjöldum þann tíma.
· Hafi börn flensueinkenni s.s. kvef eru foreldrar beðnir að halda þeim heima.

Flúðaskóli:
Breytingar á starfi Flúðaskóla eru eftirfarandi
· Hver nemandi mun vera í einum hópi (bekk) í einni stofu og mun ekki fara á milli stofa eða blandast við aðra bekki/hópa.
· Öll kennsla í verk- og listgreinastofum fellur niður. Formlegri íþrótta- og sundkennslu verður hætt í íþróttahúsi og sundlaug.
· Nemendahópar blandast ekki og skólanum verður skipt í einskonar sóttvarnarhólf, eins og mögulegt er.
· Í þessari viku verður skóli á fimmtudaginn til hádegis hjá öllum nemendum.
· Skipulag skólaaksturs verður kynnt foreldrum. Þeir foreldrar sem sjá sér fært að koma börnum sínum í og úr skóla eru hvattir til að gera það, en í samráði við skóla og skólabílstjóra.
· Skólinn opnar kl. 8:15 og fara nemendur þá beint inn í sína heimastofu.
· 1. – 7. bekkur notar innganginn sem er á glergangi, 8. – 10. bekkur notar kjallarainnganginn.
Fólk er beðið um að virða það að koma ekki inn í skólabygginguna meðan á samkomubanni stendur.

Félagsmiðstöðin Zero:
Félagsmiðstöðin er skoða hvort hægt er að hafa einhverja starfsemi í gangi. Hún mundi þá miðast við skiptingu bekkja eins og í skólanum. Nánari upplýsingar koma síðar. Vinsamlegast fylgist með á fésbókarsíðu Zero.

Áhaldahús:
Starfsemi áhaldahúsins verður með öðru sniði en venjulega og reynt að miða að því að starfsmenn sé sem minnst saman. Aðgangur að áhaldahúsinu er óheimill öðrum en þeim sem þar vinna.
Við hvetjum fólk til að nýta náttúruna til íþróttaiðkunar og heilsubótar.
Munum að huga vel að sóttvörnum í öllum okkar verkefnum.
Þetta er stórt verkefni sem við stöndum frammi fyrir og það leggst mismunandi í fólk. Kvíði er eðlilegur við svona aðstæðu og hvetjum við því alla til að huga vel að andlegri heilsu jafnt sem líkamlegri.