Uppskeruhátíð Hrunamanna 6. september

Lilja Helgadóttir Nýjar fréttir

Kæru sveitungar!

Uppskeruhátíð Hrunamanna verður haldin laugardaginn 6. september næstkomandi. Tilgangurinn  með þessari hátíð er að selja og kynna uppskeruna sumarsins auk þess að bjóða upp á skemmtilega viðburði.

Síðastliðin ár hafa nokkrir bændur og handverksfólk komið í Félagsheimili Hrunamanna  til að kynna sig og selja sína vöru. Einnig hafa nokkrir ferðaþjónustuaðilar og bændur hér í sveit verið með kynningu og sölu í fyrirtækjum sínum.

Verið er að ganga frá samningi við aðila til að sjá um hjólreiða- og hlaupaviðburðinn „Uppsveitahringurinn‘‘ sem hefur notið mikilla vinsælda. Opna íslenska grænmetismótið í golfi hefur verið haldið á Selsvelli á þessum degi og verið vel sótt.

Uppskeruhátíðin hefur dregið að sér fjölda gesta í sveitina og höfum við fulla trú á að svo verði einnig nú.

Sú spurning hefur vaknað hvort fleiri aðilar hér í sveit séu til í að taka þátt í þessum degi með okkur  og hvort fleiri bændur vilja vera sýnilegri með því að bjóða gestum heim á bæ?  Hvort hestamiðstöðvar vilja vera  með sýningar eða sölu á sínum vettvangi?  Hvort  garðyrkjustöðvar og fleiri ferðaþjónustuaðilar séu til í að taka þátt í þessum viðburði með okkur til dæmis með því að bjóða heim eða vera með vöruna sína í Félagsheimilinu. Allt til þess gert að byggja upp skemmtilegan dag með þeim fjölbreytileika sem sveitin hefur upp á að bjóða og við öll getum verið stolt af.

Þetta er mjög góður vettvangur fyrir ykkur til að kynna ykkur og framleiðsluna og til að sýna og selja uppskeru sumarsins J

Framlag bænda og ferðaþjónustuaðila er gríðalega mikilvægt á þessum viðburði, þess vegna viljum við hvetja ykkur til að taka þátt og bregðast skjótt við. Það er verið að hanna auglýsingar fyrir uppskeruhátíðina og fara þær í prentun fljótlega.  Ásborg, ferðamálafulltrúi, tekur við öllum auglýsingum og er netfangið hennar asborg@ismennt.is  Borðapantanir í Félagsheimilinu eru hjá Bjarney í síma 895-8978 og Hörpu í síma 864-4482.

Kæru sveitungar, við hlökkum til að fá jákvæð viðbrögð frá ykkur, endilega deilið þessu á þá aðila sem þið teljið málið varða.

Fyrir hönd Ferða-og menningarnefndar

Valdís Magnúsdóttir