Fara í efni

Tungufellskirkja

Tungufellskirkja

Í Tungufelli í Hrunamannahreppi er timburkirkja af eldri gerð turnlausra kirkna sem einkennast af því að veggir eru lágir og gluggar nema við þakbrún. Hún var reist árið 1856 af Sigfúsi Guðmundssyni forsmið sem einnig smíðaði Hrunakirkju og gömlu sóknarkirkjuna í Skálholti. Húsið er opið gestum á eigin ábyrgð daglega 8-18. Vinsamlegast gangið vel um.

Tungufellskirkja var reist árið 1856, en fram að því munu flestar eða allar kirkjur á staðnum hafa verið torfkirkjur. Kirkjan er af elstu gerð íslenskra timburkirkna og er hvelfingin í kórnum undir áhrifum frá Dómkirkjunni í Reykjavík. Er hún með elstu slíkum hvelfingum í íslenskum timburkirkjum. Kirkjan var fyrst máluð að innan árið 1915. Forsmiður Tungufellskirkju var Sigfús Guðmundsson snikkari frá Ytri-Tjörnum í Eyjafirði, afkastamikill kirkjusmiður á Suðurlandi, en hann smíðaði m.a. kirkjuna í Hruna. Altari, umbúnaður altaristöflu og prédikunarstóll er skorið og málað af Ófeigi Jónssyni frá Heiðabæ. Kirkjan var gefin Þjóðminasafni Íslands árið 1987 og hefur síðan verið hluti af húsasafni þess.

Elsta ritaða heimild um Tungufellskirkju er í kirknaskrá frá því um 1200 en á miðöldum var kirkjan helguð Andrési postula.