Fara í efni

Skólar og börn

 

Leikskólinn Undraland

Leikskólinn Undraland hefur verið starfræktur síðan árið 1982, en í desember 2003 var núverandi húsnæði tekið í notkun. Deildir leikskólans eru tvær, Grænhóll og Hof en á Hofi eru tveir aldursblandaðir hópar sem heita Völuhóll og Stekkhóll.

Leikskólastarfið byggist á lögum um leikskóla, Aðalnámskrá leikskóla sem er lögfest námskrá allra leikskóla og skólanámskrá Undralands. Leikskóli er uppeldis- og menntastofnum þar sem börn þroskast og læra í gegnum leik.

Við leggjum áherslu á leikinn í öllum hans myndum og setjum hann í öndvegi vegna þess að í leiknum felst námið.Hann er kennsluaðferð leikskólakennarans og námsleið barnsins. Leikurinn er kjarni uppeldisstarfsins í leikskólanum. Frjáls og sjálfssprottinn leikur er hið eðlilega tjáningarform barnsins. Reynsla barnsins tekur oftast á sig form leiksins. Í frjálsum leik eru mikilvægir uppeldiskostir sem geta eflt alhliða þroska barnanna, þ.e. líkams- ,tilfinninga-, félags-, vitsmuna-, siðgæðis og fagurþroska. Leikurinn er líf barnsins og starf. Segja má að í bernsku sé það að leika sér sama og að læra og afla sér þekkingar. Fjölþætt reynsla elur af sér þekkingu, nýjar tilfinningar, nýjar athafnir og nýja færni.

Ein megin stoð leikskólastarfsins í Undralandi er útivera og útivist. Við búum að frábærri náttúru og góðum kosti til útináms.

 



Flúðaskóli

Flúðaskóli er einsetinn dreifbýlisskóli fyrir nemendur í 1. – 10. bekk. Skólinn er
safnskóli fyrir nemendur í 8., 9. og 10. bekk úr Hrunamannahreppi og Skeiða- og
Gnúpverjahreppi.
Skólinn var í upphafi staðsettur í landi Hellisholta vegna jarðhitans þar. Flúðaskóli var
einn af fyrstu heimavistarskólum landsins, stofnaður 1929. Nafnið Flúðir er dregið af
tilkomumiklum flúðum sem voru í Hellisholtalæknum í nánd við skólahúsnæðið.
Þessar flúðir eru nú horfnar. Árið 1964 var hafist handa við að byggja núverandi
húsnæði eftir teikningu Skúla Norðdahl og var því lokið 1968. Heimavist var í
skólanum um 60 ára skeið en nú eru þar kennslustofur og starfsaðstaða kennara.
Þéttbýliskjarninn Flúðir hefur myndast í kringum skólann, þar sem atvinnulíf hefur
dafnað einkum og sér í lagi vegna mikils jarðhita. Margar náttúruperlur eru í
nágrenni skólans og leggur skólinn áherslu á að nýta sér þá staði til náttúruskoðunar
og gönguferða.
Á Flúðum voru ýmsir dýrgripir Landsbókasafns Íslands og Þjóðskjalasafns geymdir í
heimstyrjöldinni síðari ef ske kynni að loftárás yrði gerð á Reykjavík.
Einkunnarorð skólans eru Virðing – Vitneskja og leggur starfsfólk skólans metnað
sinn í að framfylgja þeim.
Flúðaskóli leggur áherslu á útikennslu og tengsl við samfélagið. Útikennslustofa er í
grenndarskógi skólans sem er Kvenfélagsskógurinn við Hellisholtalæk.
Skólinn er formlegur þátttakandi í verkefninu „Heilsueflandi skóli“ en markmið
verkefnisins er meðal annars að stuðla að góðri heilsu og líðan nemenda og
starfsfólks.
Tónlistarskóli Árnesinga og Tónsmiðja Suðurlands eru með tónlistarkennslu á Flúðum
í samstarfi við skólann. Nemendur eiga þess kost að stunda tónlistarnám á skólatíma.
Íþróttahús var tekið í notkun í ársbyrjun 1993, og það tvöfaldað að stærð árið 2015.
Sundlaug er nálægt skólanum og hafa nemendur fengið reglubundna sundkennslu frá
árinu 1949.