Fara í efni

Björgunarmiðstöð/slökkvistöð verður byggð á Flúðum

Brunavarnir Árnessýslu reka öflug lið í sýslunni allri.
Brunavarnir Árnessýslu reka öflug lið í sýslunni allri.

Sveitarstjórn Hrunamannahrepps fagnaði því á fundi sínum þann 16. nóvember sl. að  bygging tækjageymslu (björgunarmiðstöðvar/slökkvistöðvar) á Flúðum skuli nú vera í augsýn en með henni mun öll aðstaða  viðbragðsaðila taka breytingum til hins betra. 

Á fundi sveitarstjórnar var fundargerð Héraðsnefndar Árnesinga frá 10. október 2023 á dagskrá  en þar var samþykkt að lagt yrði  fram framlag á árinu 2024 til að hefja undirbúning verksins, lokahönnun, jarðvegsvinnu og gerð sökkla en gert er ráð fyrir að sú framkvæmd hefjist á árinu 2024. Mun húsið rísa við Iðjuslóð sem er miðsvæðis og með góðar vegtengingar í allar áttir. 

Mun hin nýja björgunarmiðstöð leysa af hólmi gömlu slökkvistöðina á Flúðum sem er fyrir löngu tímabært en einnig mun Björgunarfélagið Eyvindur taka þátt í byggingu hússins og einnig standa vonir til þess að aðrir aðilar sjái sér hag í því að vera með í verkefninu.  Þar með mun allt starf viðbragðsaðila verða undir einu þaki. Rétt er að geta þess að í Hrunamannahreppi er starfandi vaskur hópur hlutastarfandi slökkviliðsmanna sem starfa undir stjórn Brunavarna Árnessýslu sem fyrir löngu hefur skipað sér í hóp albestu slökkviliða landsins.  Einnig er Björgunarfélagið Eyvindur með öfluga starfsemi og eru félagar úr þeirri sveit undanfarar og sinna fyrsta viðbragði verði slys á okkar víðfeðma svæði.  Eykur það öryggistilfinningu íbúa og gesta að vita til þess að jafn öflugir einstaklingar og hér um ræðir skuli vera tilbúnir til að sinna útköllum á svæðinu jafnt á nóttu sem degi. 

Er full ástæða til að óska viðbragðsaðilum og íbúum í  uppsveitum Árnessýslu til hamingju með að framkvæmdir við langþráða björgunarmiðstöð skuli nú vera í augsýn. 

Aldís Hafsteinsdóttir
Sveitarstjóri.