Þakkir til allra sjálfboðaliða - þið gerfið lífið svo miklu betra !
Í dag er alþjóðlegur dagur sjálfboðaliðans. Af því tilefni hefur UMFÍ hvatt alla til að minna á hið góða starf sjálfboðaliða, sem hafa haldið uppi íþrótta- og ungmennastarfi gegnum árin.
Þessi dagur hefur verið haldinn frá árinu 1985 þegar Sameinuðu þjóðirnar ákváðu að helga 5. desember öllum sjálfboðaliðum. Íþróttahreyfingin á Íslandi hefur, eins og svo mörg önnur starfsemi í landinu, verið borin uppi af sjálfboðaliðum sem eiga hrós skilið fyrir framlag sitt í þágu íþrótta og sinna félaga.
Íþróttahreyfingin hefur alla tíð verið frjáls vettvangur sjálfboðaliða þar sem fólk starfar að sameiginlegum áhugamálum, myndar tengsl og kynni. Þar er hægt að starfa með mismunandi hætti allt æviskeiðið. Framlagið sem sjálfboðaliðar vinna í íþróttafélögunum styrkir undirstöður samfélagsins og verður seint metið til fjár.
Um leið og við þökkum hinum fjölmörgu sjálfboðaliðum Íþróttahreyfingarinnar fyrir sín mikilvægu störf viljum við einnig þakka öllum öðrum sjálfboðaliðum sem vinna óeigingjart og mikilvægt starf að hinum ýmsu málum og í gegnum alls konar félög. Án þeirra væri líf okkar allra rýrara og tómlegra en ella.
Þúsund þakkir til ykkar allra. Þið gerið lífið bæði litríkara og betra.