Bjarg íbúðafélag byggir fimm íbúðir á Flúðum
Forsvarsmenn Bjargs íbúðafélags ásamt fulltrúum Hrunamannahrepps tóku þann 18. júní sl. fyrstu skóflustunguna að raðhúsi sem félagið mun byggja á Flúðum. Framkvæmdir við húsið eru þar með formlega hafnar en þarna munu rísa fimm fjögurra herbergja íbúðir og er áætlað að íbúðirnar verði tilbúnar til leigu í apríl 2026. Áætluð verklok verða í maí 2026.
Er hér um að ræða fyrsta húsið sem Bjarg íbúðafélag reisir í Uppsveitum Árnessýslu en félagið er húsnæðissjálfseignarstofnun stofnuð af ASÍ og BSRB. Félagið er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. Um er að ræða svokölluð leiguheimili að norrænni fyrirmynd, "Almene boliger". Leiðarljós félagsins er að veita leigutökum öruggt húsnæði til langs tíma.
Nú þegar er hægt að sækja um íbúðirnar á heimasíðu Bjargs íbúðafélags.
Á Flúðum verða öll húsin með litlum garði og eru allar íbúðir með tveimur bílastæðum og fullfrágenginni lóð með útigeymslu og ruslaskýlum. Gæludýrahald er heimilt í íbúðunum. Sjá nánar hér um reglur Bjargs um gæludýrahald.
Hér má sjá staðsetningu húsanna á korti.
Nánari upplýsingar um íbúðirnar:
4ra herbergja íbúðir
- Fjöldi svefnherbergja: 3
- Stærð íbúða: 93,4-95,6 m²
- Fjöldi íbúða: 5
Íbúðirnar eru 93,4 - 95,6 m². Í þeim er anddyri, þrjú svefnherbergi, baðherbergi, þvottahús/geymsla og alrými með eldhúsi.
Fataskápur í hjónaherbergi en ekki eru fataskápar í öðrum herbergjum.
Geymsluskápar eru í þvottahúsi og þá eru einnig skápar í anddyri.
- Pallur með skjólvegg er fyrir framan hverja íbúð.
- Við hverja íbúð er frístandandi úti hjólageymsla ásamt óupphitaðri útigeymslu
- Baka til er innangengt í þvottahús/geymslurými.