Fara í efni

Fjárhagsáætlun 2026 ásamt þriggja ára áætlun samþykkt.

Það er gott að rekstur sveitarfélagsins er í góðu lagi en einnig er jákvætt að mannlíf allt er í miklum blóma.   Myndin er tekin á ævintýranámskeiði sem haldið var á Flúðum síðasta sumar.
Það er gott að rekstur sveitarfélagsins er í góðu lagi en einnig er jákvætt að mannlíf allt er í miklum blóma. Myndin er tekin á ævintýranámskeiði sem haldið var á Flúðum síðasta sumar.

Fjárhagsáætlun ársins 2026 og þriggja ára áætlun fyrir Hrunamannahrepp, Hitaveitu Flúða og Hrunaljós ásamt þriggja ára áætlun fyrir árin 2027, 2028 og 2029 var samþykkt samhljóða á fundi sveitarstjórnar þann 4. desember 2025.   

Eftirfarandi var bókað á fundinum.   En jafnframt er vakin athygli á að fjárhagsáætlunina sjálfa og ítarlega greinargerð með áætluninni má finna HÉR. 

Með áætluninni er lagður grunnur að fjárhagsramma sveitarfélagsins fyrir árið 2026 sem nefndum og stofnunum sveitarfélagsins er ætlað að vinna eftir. Auk þess er unnin 3ja ára áætlun fyrir árin 2027-2029 eins og sveitarfélögum er lögum samkvæmt ætlað að gera.

Í Hrunamannahreppi hefur lóðaúthlutun í þéttbýlinu á Flúðum gengið vonum framar og nú hefur verið úthlutað svo til öllum lóðum við þrjár götur í Byggð á Bríkum, Fannborgartanga, Loðmundartanga og Röðulstanga. Er þar um að ræða 79 íbúðir. Einnig eru hafnar framkvæmdir við fjölbreytta íbúðauppbyggingu við Birkihlíð samtals 28 íbúðir og nokkur fleiri íbúðarhús eru í byggingu á öðrum stöðum. Ljóst er því að ekkert lát er á uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á svæðinu enda rúmlega 100 íbúðaeiningar á framkvæmda eða undirbúningsstigi í lok árs 2025.

Ánægjulegt er að sjá að íbúum heldur áfram að fjölga í sveitarfélaginu en nú eru þeir 982. Er það fjölgun um 27 á árinu en íbúar voru 955 þann 1. desember 2024. Þann 1. desember 2023 voru íbúar Hrunamannahrepps 898. Hafa því 87 nýir einstaklingar bæst í hóp Hrunamanna frá því í lok árs 2023. Er þetta fjölgun um 9,4% sem er vel yfir meðaltali mannfjöldaaukningar á landinu. Ekki er útlit fyrir annað en að þessi þróun muni halda áfram miðað við þann mikla fjölda íbúða sem hér eru í farvatninu og þann áhuga fjárfesta á svæðinu sem nú er staðreynd.

Með aukinni þjónustu og nýjum störfum ætti einnig að vera full ástæða til bjartsýni fyrir hönd Hrunamannahrepps á næstu misserum.

Helstu forsendur fjárhagsáætlunar 2026:

Útsvarsprósenta óbreytt á milli ára eða 14,97%. En álagningarprósenta fasteignaskatts á A-flokk er lækkuð 0,45% í 0,44%.  Er þetta þriðja árið í röð sem álagningarprósenta A- hlutans er lækkuð og hefur hún nú lækkað um 10% á tímabilinu.

Almennar gjaldskrár sem og gjaldskrár veitufyrirtækja fyrir árið 2025 munu hækka um 4,3% að jafnaði sem er hækkun vísitölu neysluverðs síðastliðna 12 mánuði.

Gjaldskrár vegna úrgangsmála hækka örlítið meira eða um 5% á milli ára vegna aukins kostnaðar við málaflokkinn.

Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta jákvæð um 153,8 m.kr.

Rekstrarniðurstaða A-hluta jákvæð um 143 m.kr.

Niðurstaða samstæðu A og B hluta án fjármagnsliða og afskrifta (EBIDTA) er jákvæð um 361 m.kr. eða 17,6% af tekjum sveitarfélagsins.

Skuldir og skuldbindingar samtals (skuldahlutfall) nema 96,4% af tekjum.

Skuldahlutfall nettó verður 75,7% í árslok 2026 og skuldaviðmið skv. reglugerð 02/2012 verður 72,8 % í lok árs 2026.

Áætlað veltufé frá rekstri A- og B-hluta er áætlað 221,6 m.kr. sem er um 10,8% af heildartekjum.

Áætlaðar fjárfestingar A og B hluta nettó nema 352,8 m.kr.

Gjaldskrár með því lægsta sem gerist 
Það er eftirtektarvert að gjaldskrár í Hrunamannahreppi eru víða með því lægsta sem gerist. Sem dæmi má nefna að gjaldskrá hitaveitu er með því allra lægsta ef ekki sú lægsta á landinu. Gjöld fyrir leikskóla eru óvíða lægri og árskort í íþróttamannvirki eru á fáum stöðum ef nokkrum ódýrari en hér. Heimsendur matur til eldri borgara sömuleiðis og áfram mætti telja. Er ljóst að sveitarstjórn hefur í gegnum tíðina viljað gera vel við íbúa og búa þeim sífellt betri búsetuskilyrði.

Ýmis þjónusta hefur verið aukin við íbúa sveitarfélagsins að undanförnu og má þar nefna að á árinu 2023 var börnum, frá fæðingu og að 18 ára aldri, búsettum í sveitarfélaginu veittur gjaldfrjáls aðgangur að sundlauginni, tækjasal (þau sem hafa aldur til) og íþróttahúsinu (opnir tímar). Á árinu 2025 var tekið upp nýtt fyrirkomulag í tækjasal sem tryggir rúma opnun. Einnig hefur opnunartími sundlaugar verði lengdur og er þar nú opið alla daga vikunnar auk þess sem þjónustan hefur verið bætt með infra rauðri gufu.

Frístundastyrkur mun verða 57.500,- á árinu 2026 fyrir börn og ungmenni 0-18 ára. 

Á árinu 2023 var gerð breyting á innheimtu leikskólagjalda en nú fá öll börn gjaldfrjálsar 6 klukkustundir á dag í leikskóla. Fyrir sjöundu og áttundu klukkustundina er greitt afar hóflegt gjald.

Á árinu 2025 var tekin upp vistun í skólaseli/frístund á föstudögum og njóta nú fjölmörg börn bæði hádegisverðar og vistunar í öruggu umhverfi alla daga vikunnar sem ekki var áður. Hefur þessi breyting mælst mjög vel fyrir.

Heimgreiðslur til foreldra barna frá 12 mánaða aldri og þar til barnið fær boð um leikskólavist mun nema kr. 125.000,- á mánuði á árinu 2026. 

Á árinu 2024 var, í tengslum við gerð kjarasamninga, samið um gjaldfrjálsar skólamáltíðir barna í grunnskóla. Ríkið greiðir aftur á móti fast gjald pr. máltíð sem framlag til sveitarfélaga á meðan að samkomulag um slíkt er í gildi.

Jöfnunarsjóðurinn skerðir framlag til Hrunamannahrepps
Helstu frávik frá fyrra ári hvað rekstur sveitarfélagsins varðar er að greiðslur frá Jöfnunarsjóði munu minnka umtalsvert eða úr 414 m.kr. í 376 m.kr eða um 9,4%. Er hér um að ræða áhrif af breytingum á reiknireglu Jöfnunarsjóðs sem sveitarstjórn Hrunamannahrepps mótmælti af krafti enda með öllu óeðlilegt að sveitarfélag með meðaltekjur langt undir nágrönnum sínum, og mörgum öðrum, skuli vera skert með þeim hætti sem samþykkt hefur verið.

Fjárfest fyrir 352,8 m.kr - Skuldaviðmið í góðu lagi 
Í fjárhagsáætlun ársins 2026 er gert ráð fyrir að nettó fjárfestingar í samstæðu A og B hluta verði 352,8 m.kr. Fjárfesting í A hluta muni nema 248,8 m.kr. nettó. Helstu fjárfestingar felast í kaupum á fimm félagslegum leiguíbúðum að Hrunamannavegi 3 en fengist hefur stofnframlag frá HMS til kaupanna. Endurbótum á leikskólahúsnæði og húsnæði Flúðaskóla. Gatnagerð við Iðjuslóð og lokafrágangi í Röðulstanga, göngustíg frá Byggð á Bríkum og mörgu fleiru. Fjárfestingar eru ítarlega kynntar í greinargerð sem birt verður á heimasíðu sveitarfélagsins fljótlega.


Gert er ráð fyrir að tekin ný langtímalán árið 2026 í A hluta nemi 104,6 m.kr. En samstæðu 184,7 m.kr. Skuldaviðmið verður 72,8 % í lok árs 2026.

Í Hrunamannahreppi er framtíðin björt. Með tilkomu heilsugæslu, apóteks, sjúkraþjálfara, björgunarmiðstöðvar ásamt nýjum fyrirtækjum sem eru að setjast hér að og öflugri uppbyggingu þeirra sem hér eru fyrir er byggt undir enn sterkari framtíð í sveitarfélaginu. Þannig liggur leiðin upp á við. Markið er sett hátt og vill sveitarfélagið halda áfram að búa íbúum og fyrirtækjum framúrskarandi aðstæður með það að markmiði að íbúum fjölgi, atvinnutækifærum einnig og að þannig skapist enn betri grunnur að rekstri sveitarfélagsins.

Fjárhagsáætlunin var unnin í góðri samvinnu sveitarstjórnar, forstöðumanna stofnana og nefndarmanna og ber að þakka þá jákvæðni og samstarfsvilja sem sýndur var við gerð fjárhagsáætlunarinnar.

Aldís Hafsteinsdóttir 
Sveitarstjóri. 

Hér má sjá ítarlegri greinargerð og sjálfa fjárhagsáætlunina.