Fjölmennustu körfuboltabúðir landsins haldnar í 14. sinn á Flúðum
Fjölmennustu körfuboltabúðir landsins voru haldnar í 14. sinn í íþróttahúsinu á Flúðum um síðastliðna helgi.
Það var Árni Þór Hilmarsson sem stofnaði til körfuboltabúðanna ásamt Heiðrúnu Kristmundsdóttur en nú hefur Heiðrún tekið við skipulagningu búðanna ásamt manni sínum, Ægi Þóri Steinarssyni, landsliðsmanni í körfubolta.
Aldrei hafa fleiri sótt búðirnar en nú í ár þegar 190 börn allstaðar af að landinu mættu í Íþróttahúsið á Flúðum til að verða betri í körfubolta undir handleiðslu færustu þjálfara og leikmanna landsins.
Börn og ungmenni skemmtu sér vel við æfingar og leiki en einnig vakti það mikla athygli þegar Evrópubikarinn var borinn í hús á föstudeginum ásamt lukkudýri Eurobasket í ár, Marky Mark.
Bikarinn sem er afhentur sigurvegurum Eurobasket er núna á ferð um Evrópu þar sem hann heimsækir átta þjóðir af þeim 24 sem komast á mótið. Af þeim eru þær fjórar þjóðir þar sem lokakeppnir fara fram, ásamt samstarfsþjóðum. Ísland og Pólland náðu samkomulagi um að Ísland spili í Póllandi á Eurobasket í haust og er því Ísland ein af þessum fjórum samstarfsþjóðum.
Mótshaldarar Eurobasket fréttu af því að fjölmennustu körfuboltabúðir landsins færu fram á Flúðum og óskuðu eftir því að fá að koma í heimsókn með bikarinn og um leið fá tækifæri til að kíkja á framtíðar landsliðsleikmenn Íslands æfa körfubolta á Flúðum.
Er koma bikarsins til Flúða liður í þátttöku íslenska karlalandsliðsins í körfubolta sem tryggt hefur sér þátttökurétt á Evrópumótinu í Póllandi í haust, en fyrirliði liðsins, Ægir Þór, ásamt öðrum landsliðsmönnum og þjálfurum eru einnig þjálfarar í Körfuboltabúðunum á Flúðum.
Að lokum er rétt að geta þess að búðirnar eru mikilvæg fjáröflun fyrir yngri flokka starf körfuboltadeildar Íþróttabandalags Uppsveita Árnessýslu, ÍBU. Körfuboltadeildin er nýstofnuð en tvo ár eru frá því að deildin var stofnuð undir merkjum ÍBU.
F.h. Körfuboltabúðanna á Flúðum
Heiðrún Kristmundsdóttir.