Fara í efni

Ályktun vegna stöðu Grindvíkinga

Eftirfarandi ályktun var samþykkt á fundi sveitarstjórnar Hrunamannahrepps þann 16. nóvember sl.

Sveitarstjórn sendir öllum Grindvíkingum hlýjar kveðjur á þessum erfiða og ófyrirsjáanlega tíma. Hamfarir eins og Grindvíkingar hafa upplifað snerta alla þjóðina og á tímum sem þessum slá hjörtu Íslendinga sem eitt.
Hrunamannahreppur er reiðubúinn til að veita alla þá þjónustu og aðstoð sem möguleg er og við bjóðum öll velkomin sem á þurfa að halda í sveitarfélagið okkar. Einhverjir eru væntanlega þegar komnir og aðrir á leiðinni í hin fjölmörgu sumarhús sem hér eru sem og í annað húsnæði.

Grunn- og leikskóli getur tekið á móti börnum og þegar hafa einhverjir hafið skólagöngu hér. Jafnframt samþykkir sveitarstjórn að Grindvíkingar fái ókeypis aðgang að sundlaug og íþróttamannvirkjum. Sveitarstjórn mun einnig bregðast við búsetu í frístundabyggð með þeim hætti að hún verði Grindvíkingum möguleg í vetur.

Við viljum öll hjálpa og munum bregðast við þeim þörfum sem kunna að skapast.