Fara í efni

Miðfellshlaupið 2023

Miðfellshlaupið er verkefni sem er hugsað til að hvetja til almennrar hreyfingar og heilsueflingar. Hlaupið er unnið í samstarfi við Heilsueflandi samfélag í Hrunamannahreppi.
Boðið verður upp á þrjár vegalengdir:
- 3 km. (ganga/skokk)
- 5 km. (ganga/skokk/hlaup)
- 10 km. (skokk/hlaup)
Hlaupið byrjar kl. 11. Hlaupaleiðin liggur milli íþróttahúss á Flúðum og Miðfellshverfisins, og fylgir reiðveg og malarveg meðfram Miðfelli að vestanverðu. Hér má sjá myndband af leiðinni: https://www.relive.cc/view/v1vjD3V5ZJ6
Það verður ekki tímataka en það verður markklukka þar sem þátttakendur geta séð tíma sinn þegar í mark er komið.
Í ár höfum við sem stöndum að Miðfellshlaupinu ákveðið að allur ágóði hlaupsins renni til Píeta samtakanna.
Píeta samtökin sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða og styðja við aðstandendur. Boðið er upp á viðtöl og stuðningshópa auk þess sem samtökin eru með Píetasímann 552-2218 sem opinn er allan sólarhringinn og sérþjálfað starfsfólk samtakanna sér um símsvörun.
Starfsemin er rekin að fyrirmynd og eftir hugmyndafræði Pieta House á Írlandi. Meðferðin er mótuð af samúð og virðingu fyrir hverjum þeim sem til þeirra leita og áhersla lögð á lausnir og uppbyggingu. Forvarnir eru partur af starfseminni og standa Píeta samtökin fyrir öflugri og aðgengilegri fræðslu fyrir almenning og tekur virkan þátt í þjóðfélagsumræðu um málefnið. Heimasíða samtakanna: https://pieta.is/
Píeta samtökin eru að stærstum hluta rekinn af frjálsum framlögum almennings og viljum við hvetja ykkur til að taka þátt með okkur, styrkja þessa þörfu starfsemi og njóta hollrar hreyfingar í góðum hópi fólks.
Boðið verður uppá hressingu, auk þess sem dregið verður úr hópi þátttakenda og munu þeir heppnu hreppa veglega vinninga.
Við hvetjum ykkur til að koma og taka þátt í skemmtilegum viðburði með það að leiðarljósi að efla hreysti, gleðjast saman og styrkja gott málefni.
Nánari upplýsingar varðandi viðburðinn og skráningu munu birtast hér innan tíðar.
Við hlökkum til að sjá ykkur í sólskinsskapi þann 3. júní
Með góðri kveðju,
Arnfríður Jóhannsdóttir og Kolbrún Haraldsdóttir